Ævintýrið sem við lifum

Heimsókn Ragnheiðar Elínar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra
28/11/2014
Stiki
Gamalt fólk er mjög ólíkt öðru fólki
09/06/2015
Stiki

 Eftir Pálma V. Jónsson og Svönu Helen Björnsdóttur

Lífið á jörðinni er undursamlegt en gæðum þess og lengd er misskipt hvort heldur horft er til manna eða dýra og margvíslegar hörmungar steðja að. Of víða er líf fólks enn eins og það hefur verið í gegnum aldirnar, barátta, þungbært og stutt. Um slíkt líf vitnar Íslandssaga fyrri alda en nú eru Íslendingar friðsæl og hamingjusöm þjóð sem lifir lengi.

Pálmi V. Jónsson

Frá miðri nítjándu öld þegar ævilíkur við fæðingu voru innan við 50 ár hafa ævilíkur Íslendinga vaxið jafnt og þétt og eru nú komnar yfir áttatíu ár. Konur lifa að meðaltali um þremur árum lengur en karlar þó að síðustu rannsóknir sýni að dragi nokkuð saman með kynjunum að þessu leyti. Þessi jafnréttishalli kynjanna er minnstur á Íslandi meðal vestrænna landa. Sextug manneskja hefur nú tólf og hálfu ári lengri ævilíkur en hún hafði við fæðingu. Ef við lifum í fjögur ár, þá höfum við hagnast um eitt. Börn sem fædd eru á þessari öld hafa helmingslíkur á að ná 100 ára aldri ef hamfarir af einhverju tagi koma ekki í veg fyrir það. Heilt nýtt æviskeið hefur myndast fyrir augum núlifandi fólks og það án þess að við áttuðum okkur almennilega á því. Köllum það þriðja æviskeiðið og segjum að það hefjist um 65 ára aldur. Nú er það svo að um tveir þriðju hvers fæðingarárgangs ná þessu æviskeiði, stækkandi hlutfall með tíma. Algengasta dánarárið nálgast að vera 90 ár og fer hækkandi með tíma.

Svana Helen Björnsdóttir

Það sem meira er, fólk lifir ekki aðeins lengur heldur einnig betur. Rannsóknir sýna að langvinnir sjúkdómar koma fram á sama tíma ævinnar og áður, þ.e. í upphafi þriðja æviskeiðsins. Fötlun þeirra vegna kemur hins vegar fram síðar og fólk fellur síðar frá af þeirra völdum. Auk þess að koma í veg fyrir ýmsa skæða sjúkdóma eru margir af mikilvægustu sigrum heilbrigðisþjónustunnar fólgnir í því að breyta bráðum sjúkdómum í langvinna. Fólk sem nær þriðja æviskeiði getur átt von á því að lifa við einhvers konar fötlun tæplega fjórðung þessa síðasta æviskeiðs. Þegar fólk frá 85 ára aldri er spurt hvernig það meti heilsu sína telja tveir þriðju að heilsan sé ágæt eða góð. Aðeins þriðjungur fólks sem náð hefur 85 ára aldri metur eigin heilsu sæmilega eða lélega. Vonir eru bundnar við að tímabil fötlunar styttist og heilsa batni enn meira á efstu árum.

Segja má að fólk sé á ábyrgð skaparans fyrstu tvö æviskeiðin, nægilega lengi til að koma börnum sínum á legg. Á þessu tímabili ráða erfðir og umhverfi mestu um heilsu fólks og afdrif. Á þriðja æviskeiði dvína áhrif erfða og lífsstíll og umhverfisþættir ráða hlutfallslega meiru um heilsu og afdrif. Færa má rök fyrir því að einstaklingar ráði mestu um heilsu sína á efri árum. Með reglulegri hreyfingu, ögrandi verkefnum og heilbrigðum lífsstíl getur fólk viðhaldið góðri heilsu og færni langt fram eftir aldri.

Mikil þekking og dýrmæt reynsla býr í fólki sem náð hefur þriðja skeiði ævinnar. Þessi ört vaxandi hópur fólks er því mikill mannauður fyrir allt þjóðfélag okkar sem ætla má að muni um í væntum hagvexti. Hluti þekkingar og reynslu skilar sér til komandi kynslóða í samskiptum og stuðningi við yngri kynslóðir sem geta þá undirbúið sig betur undir framtíðina og knúið áfram hagvöxt af meiri krafti en ella. Við höfum þó enn ekki áttað okkur nægilega vel á hinum nýja raunveruleika. Hann er sá að 30 ár hafa bæst við líf fólks frá 1850, flest góð. Eftirlaunaaldur fólks á Íslandi er enn 67-70 ár, en sá aldur tók mið af eftirlaunalögum Bismarcks frá 1889. Samkvæmt þeim var upphaflegi eftirlaunaaldurinn 70 ár en miðað við lífslíkur þess tíma náði aðeins brot hvers fæðingarárgangs þeim aldri. Með sama lagi ætti að hækka lífeyrisaldur í liðlega 90 ár! Þær hugmyndir sem til skoðunar eru nú miðast þó aðeins við að hækka lífeyristökualdur um fáein ár í áföngum. Nú er fólk á þriðja æviskeiði um 12% af mannfjölda á Íslandi en þingmenn á þessum aldri fáséðir. Almenna hugmyndin um gamalt fólk er að það sé eins og miðaldra fólk, bara aðeins eldra. Það er rangt. Skipulag heilbrigðis- og félagsþjónustu hefur verið nær óbreytt síðastliðin 50 ár og tekur ekki tillit til fólks á þriðja æviskeiði nema að takmörkuðu leyti. Þar getum við og þurfum að gera betur. Samfélag okkar verður að þróast í takt við breytingar á lífi og þörfum fólks. Við þurfum aldursvænt samfélag sem auðveldar fólki að eldast og stuðlar jafnframt að því að við fáum notið starfskrafta eldra fólks sem lengst. Samfélag sem styður eldra fólki í leik og starfi með aðstoð á réttum tíma og réttum stað – þegar þess gerist þörf. Heilsugæsla og sjúkrahúsþjónusta þarf einnig að vera aldursvæn því að eldra fólk er ekki aðeins eldra miðaldra fólk, heldur er það í grundvallar atriðum ólíkt yngra fólki. Meira en helmingur heilbrigðisútgjalda rennur til þjónustu við eldra fólks með einhverjum hætti og þau útgjöld munu að öllu óbreyttu vaxa með tímanum. Til að takast á við áskoranir efri áranna sem vonandi bíða okkar sem flestra þurfum við að efla menntun og marka skýra stefnu í málefnum eldra fólks.

Pálmi V. Jónsson er yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Svana Helen Björnsdóttir er verkfræðingur, stofnandi og stjórnarformaður Stika og fv. formaður Samtaka iðnaðarins. Höfundar starfa saman að nýsköpun í þjónustu við eldra fólk.