Áhrif krónunnar á íslenskt atvinnulíf

Eru gögnin þín örugg?
12/11/2015
Sá sem gleðst yfir fortíð sinni lifir tvöfalt
09/01/2016

Á nýliðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt málamiðlun þess efnis að kanna til þrautar upptöku myntar sem sé gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum í stað íslenskrar krónu.

Það voru ungir sjálfstæðismenn sem settu málið á dagskrá með breytingartillögu þar sem fram kemur að þeir telja framtíðarlausn í gjaldmiðilsmálum Íslands felast í öðrum gjaldmiðli en krónunni. Sú tillaga var á skjön við það sem fram kom í ræðu formanns flokksins og drögum að landsfundarályktun.

Hvað er íslenskt atvinnulíf?

Íslenskt atvinnulíf samanstendur af margs konar iðnaði, sjávarútvegi, verslun og þjónustu, ferðaþjónustu og landbúnaði, auk hins umfangsmikla opinbera reksturs ríkis og sveitarfélaga. Atvinnulífið er háð utanríkisviðskiptum. Hluti atvinnulífsins byggist á nýtingu náttúruauðlinda en annar hluti þess einkum á nýtingu hugvits, þótt auðvitað fari þetta saman í mörgum tilvikum. Sumar atvinnugreinar eru háðar náttúrusveiflum en aðrar óháðar veðurfari og árstíðum.

Kostir þess að nota krónu

Svana Helen Björnsdóttir

Helsti kostur þess að Ísland búi yfir eigin gjaldmiðli er að Seðlabanki Íslands og stjórnvöld geta beitt honum sem stjórntæki í efnahagsmálum. Gengi krónunnar sveiflast þá með eða móti öðrum breytum hagkerfisins í viðleitni til þess að tryggja ávallt jafnvægi og stöðugleika sem best. Þannig er gjaldmiðillinn m.a. notaður til að leiðrétta mistök við stjórn efnahagsmála. Einkum hefur fullt forræði gjaldmiðilsins þótt hagkvæmt í glímunni við við ófyrirséð áföll þjóðarbúsins, s.s. aflabrest eða verðfall á útflutningsmörkuðum.

Þeir sem eru hlynntir því að krónan verði áfram gjaldmiðill Íslands benda á að upptaka annars gjaldmiðils hér í samvinnu við stærri ríki myndi svipta íslensk stjórnvöld þeim möguleika að grípa til krónunnar og gengis hennar sem hagstjórnartækis. Öðrum gjaldmiðli hljóti óhjákvæmilega að verða stjórnað út frá hagþróun í öðrum löndum, býsna ólíkri okkar.

Að fleiru er að hyggja. Þegar sagt er að krónan þýði minna atvinnuleysi er það gert í skjóli þeirrar kenningar þjóðhagfræðinnar að mikil verðbólga leiði til minna atvinnuleysis og öfugt. Þau störf sem verða til vegna veikrar krónu en yrðu ekki til ef sterkur og lítt hagganlegur gjaldmiðill væri notaður eru annmörkum háð og verða seint samkeppnishæf hálaunastörf á alþjóðlegum vinnumarkaði. Þau verða væntanlega til vegna þess að framleiðni annarra starfa hefur minnkað og eru þau því eins konar atvinnubótavinna. Minni framleiðni þýðir lakari lífskjör fyrir þjóðina. Á Íslandi hefur framleiðni starfa einmitt verið minni en hjá nágrannaþjóðum sem skýrir verri kjör Íslendinga þrátt fyrir gríðarmiklar auðlindir þjóðarinnar.

Kostnaður við að nota krónuna

Fyrirtæki sem flytja út og keppa þannig á alþjóðlegum mörkuðum finna fyrir göllum krónunnar, einnig þau sem keppa við aðrar þjóðir um hæft starfsfólk og sérfræðinga. Sum íslensk fyrirtæki þurfa að glíma við hvort tveggja. Það eru t.d. hugverka- og hátæknifyrirtæki í útflutningi og svonefndar skapandi greinar; fyrirtæki sem ekki eru frek á náttúruauðlindir en bjóða yfirleitt vel launuð og eftirsótt störf.

Því fylgir umtalsverður kostnaður að halda úti eigin gjaldmiðli og bankakerfi þjóðarinnar er því talsvert dýrara og fjármagnskostnaður hærri en ella væri. Samtök atvinnulífsins lögðu árið 2014 fram 10 tillögur um leiðir til betri lífskjara. Þar kemur m.a. fram að 70% af heildarskuldum íslenskra heimila og fyrirtækja var í krónum árið 2013. Skuldirnar bera 210 milljörðum króna hærri vexti á ári hverju en samsvarandi skuldir á evrusvæðinu, en nafnvaxtamunur gagnvart evrusvæði er að jafnaði 6%.

Sagan sýnir að íslenskt hagkerfi er of lítið til að geta haldið krónunni stöðugri. Gengi hennar hefur frá upphafi sveiflast mikið og oft hratt, auk þess eru vextir og vaxtamunur mun hærri en í nágranna- og viðskiptalöndum okkar.

Beinn kostnaður fyrirtækja og almennings við krónuna felst t.d. í því að dýrt er að kaupa gjaldeyri hjá íslenskum bönkum. Þannig er mismunandi gengi skráð á krónuna, seðlagengi og greiðslukortagengi, sem þýða allt að 3% álag á almennt skráð gengi. Mismunur á kaup- og sölugengi seðla er oft um 5%. Þennan kostnað bera fyrirtæki og almenningur ofan á annan kostnað sem af krónunni hlýst.

Stjórnvöldum hefur reynst erfitt að standa vörð um krónuna og flestir sem kynna sér gjaldmiðilsmál eru sammála um að vart verði hægt að afnema fjármagnshöft að fullu vegna þeirrar verndar sem svo lítill gjaldmiðill þurfi, t.d. gagnvart óprúttnum ævintýramönnum hins alþjóðlega fjármálaheims. Notkun krónunnar þýði því höft af einhverju tagi svo lengi sem hún er við lýði.

Fólki er gert erfitt að spara

Krónan fellur og styrkist á víxl. Fall krónunnar getur af sér verðbólgu en jafnframt er verðbólga oft ástæða falls hennar. Hver sem ástæðan er þýðir það ávallt að hluti af sparnaði fólks er gerður upptækur. Verðtryggingin hefur verið leið þjóðfélagsins fram hjá þessum vanda. Að henni er nú mjög sótt, en Íslendingar kynntust vel afleiðingum krónuhagkerfis án verðtryggingar á 7. og 8. áratug seinustu aldar. Þær voru skelfilegar fyrir marga.

Þeir sem starfrækja fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni og leita þurfa til fjárfesta, innlendra jafnt sem erlendra, þekkja að fjárfestingar í krónuhagkerfi Íslands kalla á hærri ávöxtunarkröfu fjárfestanna. Við venjulega og eðlilega áhættu sem bundin er við sjálfan reksturinn bætist sú áhætta að setja fjármuni inn í lokað hagkerfi í fjármagnshöftum þar sem útgönguleiðir eru ekki þær sömu og annars staðar. Þessi viðbótarávöxtunarkrafa er umtalsverð og heldur aftur af fjármagnseigendum í öðrum löndum að taka þátt í uppbyggingu atvinnulífs hér.

Frá bankahruni 2008 hefur rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja reynst óstöðugt. Íslensk stjórnvöld hafa verið flöktandi í ákvörðunum og erlendir fjárfestar hafa hrakist brott eftir sokkinn kostnað. Sjaldan er rætt um fórnarkostnaðinn af þessu ástandi, enda erfitt að meta hann. Enginn veit hvaða viðskiptatækifæri hafa tapast og hve mikil verðmæti þar með.

Þegar EES-samningurinn tók gildi árið 1994 óx viðskiptafrelsi til muna. Á þessum tíma tókst mörgum íslenskum fyrirtækjum að laða að erlenda fjárfesta sem fjármögnuðu vöxt þeirra næstu ár og áratugi. Nú hafa mörg þessara fyrirtækja flutt höfuðstöðvar sínar frá Íslandi, m.a. Össur, Actavis, Marel og Marorka. Önnur hafa verið keypt og flutt alveg burt. Innan Samtaka sprotafyrirtækja velta menn því nú fyrir sér hver sé ástæða þess að þrátt fyrir mikla grósku og hugmyndaauðgi frumkvöðla hafa hlutfallslega mjög fá sprotafyrirtæki náð að vaxa og auka veltu sína síðustu ár.

Alþjóðleg samkeppni um fólk og fyrirtæki

Nýlegar tölur um fólksflutninga til og frá Íslandi sýna mikinn brottflutning fólks sl. ár. Líklega er þetta að nokkru leyti atgervisflótti ungs menntafólks sem ber að taka alvarlega. Ein ástæðan gæti verið hár fjármagnskostnaður og að fólk treystir krónunni illa. Það gera a.m.k. erlendir sérfræðingar sem fyrirtækin reyna að fá til liðs við sig. Það fólk vill geta treyst því að sparnaður í krónum sé bæði öruggur og flytjanlegur landa í milli þegar á þarf að halda. Reynsla nokkurra íslenskra fyrirtækja sem bjóða starfsmönnum á Íslandi að velja milli þess að fá laun greidd í krónum eða erlendum gjaldmiðli er að flestir velja síðari kostinn og einungis 9 af 25 stærstu fyrirtækjum landsins velja að gera upp í íslenskum krónum. Hvað segir þetta okkur um viðhorf fólks til krónunnar?

Hvernig atvinnulíf vill ungt fólk?

Krónan – gjaldmiðillinn – er mikilvægur þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar. Þegar ungt fólk horfir til framtíðar varðandi atvinnu og lífskjör er mikilvægt að muna að krónan getur ráðið miklu um hvernig atvinnulífið þróast, hvers konar störf, laun og lífskjör verða í boði á Íslandi í framtíðinni. Ungir sjálfstæðismenn virðast gera ráð fyrir að íslenska krónan geti ekki orðið gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum. Býður íslenska krónan upp á það atvinnulífi og kjör sem ungir Íslendingar vilja búa við – eða er breyting á gjaldmiðlinum vaxandi nauðsyn?

Höfundur er verkfræðingur, stofnandi og stjórnarformaður Stika og fv. formaður Samtaka iðnaðarins