Sú krafa er iðulega gerð til þeirra sem meta eiga áhættu að þeir séu góðir greinendur, nákvæmir og varkárir, en þó um leið árangursdrifnir. Öryggisstjórar eru oft álitnir varðmenn þegar taka þarf stórar ákvarðanir og oftar en ekki tengdir NEI-ákvörðun.
Þetta á ekki endilega við um árangursríka áhættustjórnun. Hún býður viðteknum skoðunum byrginn. Ef hugmyndafræði Stephen R. Covey, sem fram kemur í bók hans „The 7 Habits of Highly Effective People“, er heimfærð upp á áhættustjórnun má greina sjö mikilvæga eiginleika sem góður öryggisstjóri þarf að hafa:
Skilja hlutverkið.
Góður öryggisstjóri skilur mikilvægi góðrar áhættustjórnunar fyrir reksturinn. Hann skilur hlutverk sitt. Markmið í rekstri, viðskiptatækifæri og ábyrgð starfsmanna skipta máli þegar ákvarðanir eru teknar. Þegar góður öryggisstjóri tekur ákvörðun hefur hann alla þessa þætti í huga.
Samstarf.
Mikilvægt er fyrir öryggisstjóra að þeir skapi skilning á viðleitni sinni til að tryggja öryggi í rekstri sem best. Samstarf þarf að ríkja og stuðningur má ekki bresta við stjórnarborðið. Samstarfið þarf að vera víðtækt og ná til allra. Aðeins þannig er unnt að efla öryggisvitund allra starfsmanna. Góður öryggisstjóri skilur að hann er hluti liðsheildarinnar. Hann starfar með fólki en ekki gegn því. Hann skilur áhyggjur framkvæmdastjórnar og einstakra starfsmanna sem ábyrgð bera.
Metnaðarfull hugsun.
Árangursríkur öryggisstjóri þarf að hafa metnaðarfulla hugsun. Stöðugt ástand verður að vera honum áskorun um að hægt sé að ná enn betri árangri varðandi rekstrarmarkmið sem sett hafa verið. Góður öryggisstjóri skilur að fortíðin segir ekki fyrir um framtíðarárangur. Hann er reiðubúinn að vinna út fyrir eigin þægindahring til að ná markmiðum í rekstri.
Jákvætt viðhorf.
Það er mikilvægt að huga vel að samstarfsfólki við hvaða aðstæður sem er. Góður öryggisstjóri hefur einlægan áhuga á velferð samstarfsmanna sinna og sýnir það í verki. Hann leggur sig eftir því að kynnast samstarfsfólki sínu og skilja áhyggjur þess, t.d. af því að standa undir ábyrgð í starfi. Góður öryggisstjóri skilur að gagnkvæmur ávinningur þarf að vera í samstarfi, innra sem ytra og hann stuðlar að samstarfsviðleitni.
Sýna sveigjanleika.
Það er alveg sama hver stærð fyrirtækis eða stofnunar er, góður öryggisstjóri er alltaf sveigjanlegur og tilbúinn að vinna með öllum rekstrareiningum. Hann leitast við að skilja sölu- og markaðsdeildina sem þarf að leggja upp nýja markaðsherferð, upplýsingatæknideildina sem vill skipta við nýjan vélbúnaðarframleiðanda, og áhrif þessara ákvarðana á rekstrarniðurstöðuna.
Sýna bjartsýni.
Í eðli sínu þarf góður öryggisstjóri helst að vera varkár í nálgun sinni á verkefni. Áhættustjórnun er samheiti yfir orðið „Nei“. Flest viðfangefni áhættustjórnunar hafa með neikvæða þætti áhættu að gera. Góður öryggisstjóri skilur að það eru tvær hliðar á öryggispeningnum og hann er fær um að skilja báðar hliðar áhættunnar, þ.e. einnig tækifærin sem kunna að felast í áhættunni. Bjartsýni góðs öryggisstjóra við virka áhættustjórnun víkkar sjóndeildarhringinn og getur opnað ný tækifæri í rekstri.
Orsakavaldur breytinga.
Árangursríkur öryggisstjóri þarf að leiða áfram breytingar innan fyrirtækis eða stofnunar. Sé ákvörðun tekin um breytingar er góður öryggisstjóri fær um að miðla upplýsingum, til starfsmanna og stjórnenda, um markmið breytinganna og væntan hag sem þær leiða af sér. Enn fremur getur hann sannfært aðra um að ákvörðunin sé tekin á réttum tíma og af réttum ástæðum. Þar með nær hann að virkja aðra starfsmenn í lið með sér og auka líkurnar á því að breytingarnar skili væntum árangri.
Áhrifaríkur öryggisstjóri tengir saman allar deildir innan fyrirtækis eða stofnunar. Árangur næst með því að hafa fullan skilning á þörfum fyrirtækis eða stofnunnar sem heild, markmiðum þess og starfsfólki. Góður öryggisstjóri þarf því að huga að öllum þáttum rekstursins og tileinka sér þá sjö eiginleika er taldir voru upp hér að ofan.