Því er spáð að Íslendingar 67 ára og eldri verði hundrað þúsund talsins árið 2061. Það er fjölgun um ríflega 62 þúsund manns frá árinu 2013 og mun þá hlutfall þessa aldurshóps hafa farið úr 11,2% landsmanna í tæplega 23%. Allnokkuð hefur verið fjallað um þessa þróun á liðnum vetri, einkum af stjórnendum hjúkrunarheimila og stjórnmálamönnum en einnig af félögum eldra fólks. Af þessum skrifum mætti ætla að meginstefna í málefnum eldra fólks væri að tryggja ævinlega nægan fjölda hjúkrunarrýma, þó að sumir nefni að styrkja ætti heimahjúkrun.
Í umræðu um þörf fyrir hjúkrunarrými er gjarnan beitt einfaldri reiknireglu. Hún er sú að nú eru um það bil 2.500 hjúkrunarrými á Íslandi og þeim þyrfti því að fjölga í 7.500 árið 2061 til að fullnægja framreiknaðri þörf. Dvöl á hjúkrunarheimili er dýrasta form öldrunarþjónustu og kostar um átta og hálfa milljón á ári fyrir hvern einstakling. Heildarkostnaður er nú um 21 milljarður króna á ári og myndi aukast að óbreyttu í um 63 milljarða króna á ofangreindu tímabili, auk verulegs byggingarkostnaðar á nýjum rýmum. Óbreytt skipulag og verklag leiðir af sér sömu fyrirsjáanlegu niðurstöðuna og ef sú er stefnan veitir ekki af 100 nýjum hjúkrunarrýmum ár hvert næstu 50 árin.
Hjúkrunarrými eru vissulega mikilvæg í öldrunarþjónustu og óumflýjanlegt úrræði fyrir ákveðinn hóp fólks á hverjum tíma. Hins vegar er sú stefna sem fram kemur í lögum um málefni eldra fólks að styðja beri fólk til sjálfstæðrar búsetu á eigin vegum eins lengi og kostur er. Þetta er einnig oft nefnt við hátíðleg tækifæri. En það er engu líkara en að þetta hafi gleymst í hversdagsleikanum. Þó er það svo að mjög fáir óska sér þess að þurfa að búa á hjúkrunarheimili sé annars kostur. Þjónustulegur fábreytileiki og allt sem aflaga fer í þjónustukeðjunni við eldra fólk stuðlar að viðvarandi öngþveiti á bráðasjúkrahúsum og eykur þrýsting á hjúkrunarheimilisbyggingar.
Það þarf að endurnýja heitin og marka skýra stefnu til næstu ára og áratuga í öldrunarþjónustu. Þar þarf heilbrigðisráðuneytið að beita sér enda hefur það heildarábyrgð á allri þjónustukeðjunni. Það er skoðun höfunda að þrátt fyrir allt sé líklegast og einnig happadrýgst að stefna að sjálfstæðri búsetu eldra fólks, svo lengi sem nokkur kostur er. Ef þetta er stefnan þarf að skoða hverjar þarfir eldra fólks eru í raun og hvernig mæta megi þeim með sem mestum lífsgæðum á skilvirkan og hagkvæman hátt. Samhliða skýrri stefnumótun þarf einnig að stórefla menntun í öldrunarfræðum á öllum sviðum heilbrigðis- og félagsþjónustu, innan háskóla, í starfsþjálfun og endurmenntun.
Vegna vaxandi breytileika einstaklinga með hækkandi aldri þarf mikinn fjölbreytileika í þjónustu við eldra fólk, eins konar sinfóníuhljómsveit úrræða, sem öll eru til staðar í réttum hlutföllum, samstillt og samþætt með öflugum samskiptum milli þjónustuaðila. Rannsóknir hafa sýnt að skilvirkasta leiðin til þess að skilgreina þarfir eldra fólks er að beita heildrænu öldrunarmati á öllum stigum þjónustukeðjunnar. Rannsóknir hafa einnig sýnt að teymisvinna er annar lykill að árangri í öldrunarþjónustu. Því fer fjarri að ein lausn henti öllum. Ljóst er að sumt vantar alfarið í þjónustuflóruna á Íslandi, annað er rýrt í roðinu. Góð áform voru um að koma öldrunargeðlækningum á laggirnar en þau fóru í súginn árið 2008. Létt sambýlisform vantar fyrir fólk sem er skýrt og með þokkalega líkamlega færni en einmana eða með depurð og kvíðaröskun. Næturdvöl og helgardvöl gætu verið góð viðbótarúrræði. Huga mætti að markvissri og vel útfærðri öldrunarvernd á vegum heilsugæslunnar.
Nýtt sjúkrahús sem sameinar alla starfsemi á einum stað og hefur bestu hugsanleg tæki, þarf að vera aldursvænt enda eldra fólk fjölmennasti sjúklingahópurinn bæði nú og þegar til framtíðar er litið. Til þess ber einnig að líta að ör þróun upplýsinga- og fjarskiptatækni býður hugmyndaríku fólki tækifæri til nýsköpunar og þróunar margvíslegra lausna sem stuðlað geta að betri lífsgæðum, öryggi og vellíðan eldra fólks sem kýs að búa heima hjá sér þrátt fyrir skerta getu á ýmsum sviðum. Slíkar tækninýjungar gætu einnig hentað fleirum, s.s. fötluðum eða barnafjölskyldum. Á hátæknisjúkrahúsi er þörf fyrir heildrænt öldrunarmat til að greina og meta meðferðarkosti, ekki síst þegar kemur að stórum aðgerðum eða flókinni meðferð svo sem krabbameinsmeðferð og blóðskilun – svo að dæmi séu tekin.
Teymisvinnu vantar í öldrunarþjónustu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki á færi hjúkrunarfræðinga að mæta öllum þörfum fólks í heimahjúkrun, þrátt fyrir menntun og vilja. Það þarf einnig lækna, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfara og fleiri heilbrigðisstarfsmenn til. Það ætti að vera réttur fólks að fá lækna og eftir þörfum annað heilbrigðisstarfsfólk heim til sín, ef fólk er of veikt til að komast að heiman. Í stað þess að tala um heimahjúkrun mætti tala um heimaþjónustu heilsugæslu og félagsþjónustu, enda þótt hjúkrunarfræðingar séu í burðarhlutverki. Vel útfærð þjónustukeðja er flókin og því mikilsvert að einn aðili sé málsstjóri, nokkurs konar verkefnisstjóri, og stýri hópi fagaðila og leiðbeini sérstaklega þeim sem þjónustunnar nýtur. Með öflugri teymisvinnu margra fagaðila og metnaðarfullri málsstjórn má færa víglínu öldrunarþjónustunnar frá sjúkrahúsi heim til fólksins.
Enn er ótalin hugsanleg frekari tækniþróun í öldrunarþjónustu. Einnig má hugsa sér að vel frískt eldra fólk sem er tilbúið að gefa af tíma sínum geti í auknum mæli komið að stuðningi við meðbræður- og systur með viðveru eða heimsóknum til þeirra sem einmana eru eða með vitræna skerðingu. Það má fara margar leiðir í að nýta mannauðinn sem býr í eldri borgurum lands okkar – og hver vill ekki hafa hlutverki að gegna í lífinu? Skilaboðin eiga að vera skýr og metnaðarfull. Við vinnum öll saman með einstaklingnum til þess að ná því marki að sjálfstæð búseta sé möguleg sem lengst.
Pálmi er yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Svana Helen Björnsdóttir er verkfræðingur, stofnandi og stjórnarformaður Stika og fv. formaður Samtaka iðnaðarins. Höfundar starfa saman að nýsköpun í þjónustu við eldra fólk.