Eftir hrun Berlínarmúrsins

Norræn sprotafyrirtæki kynna sér vísindagarða í Bretlandi
26/07/2007
Stiki hlýtur gullvottun Microsoft
04/09/2007

Þessi grein eftir Svönu Helen Björnsdóttur framkvæmdastjóra Stika og stjórnarmann í Persónuvernd, birtist í hátíðarriti Persónuverndar 2007


Það eru 18 ár síðan Berlínarmúrinn féll. Þeim sem lifðu þann tíma eða kynntust því af eigin raun hvernig var að búa í einhverju ríkjanna austan við hið svokallaða járntjald líður seint úr minni það sem þá gerðist. Heimurinn breyttist og hefur ekki orðið samur síðan. Milljónir manna fengu frelsi. Frelsi til að gera svo ótal margt sem áður hafði verið bannað. Frelsi til að hugsa, tala, skrifa, ferðast, tjá skoðanir sínar. Frelsi til að vera einstaklingur, frelsi til að eiga einkalíf.

Frelsi til að eiga einkalíf er ekki jafn sjálfsagt og mörgum á Íslandi kann að þykja. Reyndar er það svo að á öllum tímum hafa valdhafar í samfélagi fólks haft tilhneigingu til að setja (öðru) fólki skorður til þess beinlínis að tryggja eigin völd og áhrif. Þjóðverjar fengu að kenna illilega á þessu á 20. öld, fyrst með valdatöku nasista og síðan kommúnista í Austur-Þýskalandi. Stjórnvöld þar ákváðu að loka landamærum sínum og einangra landið fyrir áhrifum frá öðrum en kommúnistalöndum. Höfuðborg Þýskalands var skipt og vesturhluti hennar einangraður með tvöföldum múrvegg. Hin svonefnda Austur-Berlín varð höfuðborg Austur-Þýskalands og gættu vopnaðir hermenn þess að fólk kæmist ekki á milli borgarhluta. Þeim var skipað að skjóta hvern þann sem reyndi að flýja frá Austur-Berlín. Byggð var upp leyniþjónusta (Stasi, Ministerium für Statssicherheit) sem hafði um eitt hundrað þúsund almenna borgara á mála við að njósna um nágranna sína, kunningja, vini og jafnvel ættingja. Upplýsingatæknin var þá skemmra á veg komin en nú er, svo njósnastarfsemin útheimti fjölda fólks við hlerun og vöktun. Fyrir venjulega Íslendinga er vart hægt að hugsa sér hvernig líf undir stöðugu eftirliti er.
Það er erfitt hlutskipti að neyðast til að lifa allt sitt líf undir smásjá valdhafa sem hvenær sem er geta gripið til aðgerða og hegnt einstaklingum fyrir óæskilega hegðun, þ.e. hegðun sem er valdhöfum ekki þóknanleg og grefur undan valdi þeirra og áhrifum. Á okkar tímum geta slíkir valdahafar verið aðrir en opinber stjórvöld þjóðríkja. Það eru e.t.v. miklu fremur öflug fyrirtæki, ekki síst alþjóðleg, sem hafa sín eigin lög og reglur. Það er staðreynd að bæði er einfalt og ódýrt að koma sér upp búnaði til eftirlits og vöktunar á fólki. Upplýsingarnar sem safnað er má geyma og vinna úr hvenær sem þurfa þykir. Í markaðsdrifnu hagkerfi hinna vestrænu þjóðfélaga skiptir öllu að geta greint markaðinn vel og nákvæmlega. Geta kortlagt hegðun og neyslu bæði fólks og fyrirtækja. Til þess höfum við ekki aðeins upplýsingatæknina heldur einnig alla hina fjölmörgu sérfræðinga sem eiga störf sín og laun undir því að þeir geti greint okkur öll í eindir. Upplýsingar um neyslu fólks, skoðanir, hegðun, heilsu, búsetu og margt fleira mynda svokallaðan rafrænan prófíl af einstaklingum. Þeir sem eignast slíkan prófíl fá einnig ákveðið vald yfir viðkomandi einstaklingum. Til dæmis safna nú fjármálafyrirtæki ötullega upplýsingum um kauphegðun fólks, reyndar með upplýstu samþykki þess. Þeir sem leyfa slíka upplýsingasöfnun um sig gefa jafnframt höggstað á sér sem gæti komið þeim illa síðar.

Nú á tímum hafa stjórnvöld varla undan að aðlaga lög og reglur síbreytilegu tækniumhverfi. Nægir þar að nefna rafræna sjúkraskrá, vistun rafrænna skjala til frambúðar hjá Þjóðskjalasafni Íslands og fjarskiptamál. Sagt er að nú sé runnin upp upplýsingaöld og upplýsingatæknin hefur smeygt sér inn í líf okkar allra. Hún nær t.d. til síma, bifreiða, þvottavéla, heilsugæslu, skólastarfs, verslunar og viðskipta. Og þá steðjar allt í einu aftur sú hætta að okkur, að við séum vöktuð í bak og fyrir. Í Austur-Þýskalandi fóru valdhafar ekki í grafgötur um vilja sinn og tilgang með eftirliti og vöktun. Þéttriðið net njósnara var að störfum á öllum vinnustöðum, í fjölbýlishúsum, á krám og veitingastöðum. Ekki þurfti annað en minnsta grun um hegðunarfrávik til að hlerunarbúnaði væri komið fyrir í íbúðum fólks og síðan gengu njósnarar vaktir við hlerun allan sólarhringinn. Eftir fall Berlínarmúrsins voru njósnaskýrslur Stasi dregnar fram í dagsljósið og síðan þá hafa Þjóverjar getað lesið skýrslur um sjálfa sig. Marga grunaði aldrei hvað var í gangi og ljóst er að njósnastarfsemin leiddi af sér miklar þjáningar fyrir fólk. Mest auðvitað fyrir þá sem voru þolendur njósnanna, en einnig fyrir hina sem njósnuðu og voru oft neyddir til slíkra starfa af valdhöfum gegn eigin vilja. Þessu hefur verið mjög vel lýst í kvikmyndinni “Das Leben der Anderen” sem nýverið hlaut óskarsverðlaun sem besta erlenda kvikmyndin. Störf Stasi höfðu það eina markmið að viðhalda og auka vald kommúnistaflokks Austur-Þýskalands. Lykillinn að því starfi var fólginn í upplýsingasöfnun. Það sama á við um allt vald, hvort sem það er í höndum fjármálafyrirtækja, verslanakeðja eða stjórnmálamanna. Ríkulegur aðgangur að upplýsingum er forsenda valds þeirra. Í lýðræðisskipulagi er hið endanlega stjórnmálalega vald í höndum þjóðarinnar. Það ástand er ekki sjálfgefið og það kostar baráttu að viðhalda því ástandi. Jafnframt er okkur nauðsynlegt að vera á verði gagnvart ýmiss konar valdhöfum sem ásælast upplýsingar um okkur. Við skulum því vera afar nísk á upplýsingar sem varða persónu okkar.

Þótt nokkuð sé um liðið síðan Berlínarmúrinn féll er mikilvægt að við gleymum aldrei þeirri kúgun sem viðgekkst í Austur-Þýskalandi og í mörgum öðrum ríkjum fyrr og síðar. Kúgun sem valdhafar beittu fólk með skefjalausu eftirliti og persónunjósnum. Á okkar tímum er enn sem fyrr sú hætta að ríkjandi valdhafar nýti sér tækifærin sem gefast til eftirlits og mismununar eða kúgunar af ýmsu tagi. Skráning persónuupplýsinga um börn í leikskóla, þroskafrávik þeirra, skólagöngu, agabrot og svo áframhaldandi skráning fram eftir öllu lífinu er varhugaverð. Það er fín lína milli þess að skrá upplýsingar einhverjum til gagns og hins að safna saman upplýsingum af ýmsu tagi sem síðar má samtengja og nota til að búa til rafrænan einstaklingsprófíl af einu eða öðru tagi – og í öðrum tilgangi en upphaflega var ætlað þegar upplýsingunum var safnað.

Persónuvernd gegnir þýðingarmiklu hlutverki í þjóðfélagi okkar í dag. Á okkar tímum skiptir miklu að þess sé vandlega gætt að vinnsla með persónuupplýsingar fari fram með réttmætum og eðlilegum hætti. Á undanförnum árum hefur þeim einstaklingum fjölgað mjög sem leita til Persónuverndar og finnst á sér brotið við söfnun og meðhöndlun persónulegra upplýsinga um þá. Margir líta svo á að það sé síðasta eða eina úrræðið að leita aðstoðar hjá Persónuvernd. Þá eru ótalin þau fyrirtæki eða stofnanir sem finnst á sér brotið af ýmsum ástæðum. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að bæði stjórn og starfsmenn stofnunarinnar fari vel með vald sitt og sýni ávallt fyllstu aðgát í meðferð mála. Ég veit að metnaður stofnunarinnar er mikill til að standa rétt og faglega að allri málsmeðhöndlun og úrskurðum sem felldir eru.

Svana Helen Björnsdóttir
verkfræðingur og stjórnarmaður í Persónuvernd