Eldra fólk í tæknivæddri veröld

Framsækin öldrunarþjónusta – til móts við eldra fólk
31/10/2015
Eru gögnin þín örugg?
12/11/2015

Kostnaður við heilbrigðisþjónustu hefur aukist og mun halda áfram að vaxa hraðar en verg landsframleiðsla. Fólk lifir nú lengur en áður og verði engar breytingar gerðar á heilbrigðisþjónustu stefnir í að samfélag okkar muni með tímanum ekki geta staðið undir kostnaði við þjónustuna. Fólk er almennt meðvitað um þessa þróun og er tilbúið að fjárfesta í heilsu sinni og forvörnum gegn aldurstengdri hrörnun. Þegar veikindi koma upp vill fólk geta treyst því að viðeigandi heilbrigðisþjónusta sé í boði án verulegs aukakostnaðar.

Hröð þróun upplýsingatækni

Pálmi V. Jónsson

Í erfiðum rekstri Landspítalans og heilbrigðisþjónustu við eldra fólk leynast tækifæri til nýsköpunar. Með teymisvinnu fagfólks í öldrunarþjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa og félagsþjónustu skapast möguleikar á að stórbæta þjónustuna. Fyrst þarf að greina heildarþarfir, ákveða hvaða þjónusta verður boðin, hver veitir hana og hvenær. Hanna þarf þjónustuna með tilliti til þess að ná fram hámarksgæðum og nýtingu þeirra auðlinda sem hún krefst – en það eru einkum starfskraftar. Gæði og öryggi þjónustunnar skipta mestu, að hún sé áreiðanleg, fylgja megi eftir framkvæmd hennar og tryggja að hún sé aðgengileg fyrir þá sem njóta hennar. Þá þarf að skilgreina hvaða viðmið eiga að gilda um gæði. Oft eru þeir sem njóta þjónustunnar sjálfir illa færir að meta gæði hennar eða gera athugasemdir. Þá er mikilvægt að aðstandendur séu hafðir með í ráðum, þeir upplýstir og þeim gert kleift að styðja sitt fólk eins og aðstæður leyfa.

Upplýsinga- og fjarskiptatækni er lykill að lausn vandans. Svonefndar snjalllausnir sem byggjast á þeirri tækni geta rutt úr vegi ýmsum hindrunum og greitt götu umbóta í heilbrigðisþjónustu sem og á aðliggjandi velferðarsviðum samfélagsins. Þær þjóðir sem eiga þess kost að nýta þessa þróun tækninnar geta stórbætt þjónustu við eldra fólk og aukið umfang hennar án þess að kostnaður hækki að sama skapi. Fyrst er að nefna nútímavæðingu í meðferð heilbrigðisupplýsinga. Heilbrigðisgögn má gera mun aðgengilegri fyrir heilbrigðisstarfsmenn en nú er. Ef tryggja á rétta meðferð og góða ráðgjöf verða upplýsingar að vera bæði réttar og ítarlegar. Rafrænt heildrænt öldrunarmat InterRAI er aðferð sem reynst hefur vel til að ná utan um aldurstengdar breytingar í lífi fólks, s.s. marga sjúkdóma, lyfjanotkun, færnitap og breytingar á félagslegum aðstæðum. Þessa aðferð má nýta á öllum sviðum heilbrigðis- og félagsþjónustu fyrir eldra fólk og fólk með langvinna sjúkdóma óháð aldri.

Öryggisnet fyrir eldra fólk

Svana Helen Björnsdóttir

Flestir vilja búa heima sem lengst og í orði kveðnu hefur það verið stefna stjórnvalda að styðja við sjálfstæði eldra fólks. Til að það gangi eftir þurfa að koma til margs konar lausnir til hjálpar eldra fólki sem vill búa heima þrátt fyrir skerta færni. Auðvelt er að mæla margs konar athafnir og virkni fólks, telja skref, mæla ferðir upp og niður stiga og jafnvel að skynja þegar fólk fellur til jarðar. Fram eru komnar aðferðir til þess að staðsetja fólk sem hægt er að nýta, t.d. fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóm. Einnig fást nú úr sem gamalt fólk getur borið og notað sem farsíma með innbyggðri staðarákvörðun. Þá fást hurðalásar sem stýrt er með farsíma og veita má tilteknum aðilum heimild til að opna. Þá geta þjónustuaðilar sjálfir, að fenginni aðgangsheimild, opnað dyr með auðkenningu um farsíma. Skrá má með þar til gerðum hugbúnaði veitta þjónustu eins og heimilisþrif, heimsóknir hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara eða lækna. Einnig má senda með sjálfvirkum hætti skilaboð til aðstandenda eða annarra þeirra sem koma að þjónustu og mynda saman öryggisnet í kringum aldraðan einstakling. Það er vandi að útfæra þjónustukeðju heimaþjónustu heilsugæslu og félagsþjónustu svo vel fari. Ef raunverulega á að veita einstaklingsmiðaða þjónustu getur þjónustukeðjan orðið flókin sé ekki vel að öllu gætt. Til að hugmyndin nái vel fram að ganga þarf að fela einum aðila frumkvæði og ábyrgð á allri þjónustu gagnvart tilteknum einstaklingi. Slíkur aðili stýrir síðan hópi fagaðila.

Lífsskrá

Haft er eftir Platon að læknisfræði sé stunduð af kostgæfni þegar hún tekur mið af siðfræði. Hafi það verið mikilvæg hugsun í fornöld, þá er vægi hennar ekki minna nú. Allar tækniframfarir í heilbrigðisþjónustu hafa á sér siðfræðileg hlið og með aukinni tækni verður sú spurning áleitin hvort ætíð sé rétt að veita alla hugsanlega meðferð. Þegar taka þarf ákvarðanir við lífslok er lögð megináhersla á sjálfræði einstaklingsins og borin virðing fyrir viðhorfum hans og óskum. Þetta sjónarmið er áréttað í lögum um málefni sjúklinga sem kveða á um rétt sjúklings til að ákveða sjálfur hvort hann þiggur meðferð eða ekki. Á Landspítala hafa verið útbúnar leiðbeiningar í þessum anda um takmörkun meðferðar. Þar er siðfræðilegur grunnur reifaður og leiðbeint um samtalið og nálgun þess, auk þess sem kveðið er á um skráningu slíkra takmarkana í sjúkraskrá. Mennta þarf alla heilbrigðisstarfsmenn og þjálfa í samtalinu um þessi viðkvæmu mál, ekki síður en að þjálfa þá í allri tækni er lýtur að endurlífgun.

Fyrir allmörgum árum setti Embætti landlæknis á laggirnar svokallaða Lífsskrá. Með Lífsskránni var hugmyndin að einstaklingur gæti sjálfur tekið ákvörðun um að ekki væri hafin meðferð eða meðferð haldið áfram sem er án raunhæfrar vonar um lækningu eða líkn. Þá er sérstaklega átt við meðferð og rannsóknir sem einungis eru íþyngjandi og lengja dauðastríðið. Lífsskránni var ætlað að geyma upplýsingar um vilja einstaklings á þeim tíma er hún var undirrituð. Í Lífsskránni voru tvö mikilvæg atriði. Annars vegar eru það óskir um meðferð við lok lífs, geti viðkomandi ekki tekið þátt í ákvörðunum sjálfur. Hins vegar er tilnefning talsmanns sem valinn er til að koma fram fyrir hönd viðkomandi til að taka þátt í umræðum um óskir varðandi meðferð við lífslok, hvort heldur það er að þiggja, hafna eða draga til baka meðferð. Því miður hefur Lífsskráin ekki verið útfærð með þeim hætti sem til stóð. Hún kom til framkvæmda sem pappírseyðublað og hefur enn ekki verið tölvuvædd og gerð aðgengileg heilbrigðsstarfsfólki allan sólarhringinn árið um kring, svo sem nauðsynlegt hefði verið. Í stað þess að gangast í þá tæknilegu útfærslu sem þurft hefði hefur Embætti landlæknis nú lokað Lífsskránni. Auk þess að mennta og þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í því að takast á við þessi mikilvægu málefni væri vert að endurvekja hugmyndina um Lífsskrána, tölvuvæða hana og finna henni umsjónaraðila og stað. Samhliða væri mikilvægt að fara í samfélagslegt samtal um þessi mál, þannig að fólk fengi hvatningu og stuðning til þess að hugsa um þessi mikilvægu málefni og í kjölfarið tækifæri til þess að koma þeim hugsunum á framfæri.

Andleg aðhlynning er mikilvæg

Maðurinn er efni og andi. Því er mikilvægt að nálgast heilbrigðisþjónustu með heildrænum hætti. Þrátt fyrir að mikilvægi andlegrar aðhlynningar fólks sé almennt viðurkennt, verður hún oft útundan í heilbrigðisþjónustunni. Því veldur tímaleysi starfsfólks sem er störfum hlaðið og mæta þarf kröfu samfélagsins um bætta framleiðni. Ættingjar og vinir eiga oft í erfiðleikum með að finna tíma til heimsókna vegna hraða og álags sem einkennir nútímasamfélag.

Heilsu- eða færnitap minnir fólk óþægilega á að lífi hér á jörð eru takmörk sett. Því vex mikilvægi andlegrar aðhlynningar þegar á líður ævina. Nærvera er kjarni andlegrar umönnunar. Þar er sjónum beint að tilfinningalegum, félagslegum og andlegum þáttum og samskipti eru af öðrum toga en við læknisfræðilega meðhöndlun. Hið andlega er ekki það sama og hið trúarlega og því getur fólk verið andlega sinnað og átt sinn andlega veruleika án þess að trúa á Guð eða æðri mátt.

Brugðist við einmanaleika

Margir kannast við að einmanaleiki fólks eykur kvíða og skerðir lífsgæði verulega. Við þessu reyna fjölskyldur að bregðast með símhringingum og heimsóknum. Ekkert kemur þó í staðinn fyrir nálægð annarrar manneskju sem með skilningi, hlýrri nærveru, samræðu og hlustun örvar lífsgleði þess sem sjálfur kemst ekki út.

Umhugsunarvert er hvernig samfélagið getur hjálpað fólki sem glímir við einmanaleika, þunglyndi og kvíða, er nánum ættingjum sleppir. Sú leið hefur verið nefnd að bjóða mætti fólki sem þjáist af þessum einkennum að búa í opnu sambýli með öðru fólki. Að þessu þurfa sveitarfélög að huga. Innri samfélagsgerð og skipulag byggðar þarf að taka mið af velferð allra – alla ævi. Í stefnu Reykjavíkurborgar um að verða aldursvæn borg felst virðing við eldra fólk og viðurkenning á mikilvægi þess fyrir samfélagið allt. Með því að mæta þörfum eldra fólks er um leið stuðlað að velferð allra í samfélagi okkar.

Þeirri hugmynd hefur áður verið varpað fram af höfundum þessarar greinar að þjóðkirkjan, sem lengi hefur verið hluti velferðarkerfisins vegna hins kristna mannskilnings síns, taki sér stærra hlutverk í andlegri aðhlynningu fólks en verið hefur. Prestar og djáknar vitja um sjúkt og aldrað fólk og sinna því eins og þeir best geta. Víðtækari stuðningur er veittur með liðsinni fólks í kirkjusóknum og nærumhverfi. Þá hefur Rauði krossinn skipulagt starf heimsóknavina með líkum hætti og þjóðkirkjan. Á hans vegum heimsækir fólk sjúklinga á heilbrigðisstofnunum sem annars fengju sjaldan eða aldrei heimsóknir – og sömuleiðis aðra er búa við einsemd. Þetta lofsverða sjálfboðaliðastarf hefur mikla þýðingu fyrir þá sem njóta. Þjóðkirkjan gæti án efa, vilji hún það, skipulagt meira starf af þessu tagi innan sókna í nærumhverfi fólks. Innan vébanda kirkjunnar er fjöldi fólks sem ekki sinnir lengur fastri vinnu en er við góða heilsu og með vilja til að láta gott af sér leiða. Það fólk er vel fallið til að styðja meðbræður og -systur með heimsóknum og nærveru – og auðga um leið eigið líf.

Pálmi er yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Svana Helen er verkfræðingur, stofnandi og stjórnarformaður Stika og fv. formaður Samtaka iðnaðarins. Höfundar starfa saman að nýsköpun í þjónustu við eldra fólk.