Sprotafyrirtæki eru venjulega sprottin af rannsókna- eða þróunarverkefnum og byggjast á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi. Slík fyrirtæki mynda grunn að nýsköpun í atvinnulífinu.
Þau eiga oft á brattann að sækja í byrjun og það er algengt að 12-15 ár taki að koma þeim vel á legg. Þótt mörg sprotafyrirtæki nái ekki flugi, er ljóst að margt gott liggur eftir slík fyrirtæki, bæði í reynslu og þekkingu. Á síðustu árum hefur nýstofnuðum sprotafyrirtækjum fækkað mjög. Nú er staðan þannig að við getum talist heppin ef eitt til tvö slík fyrirtæki eru stofnuð hér á landi á ári.
Við sem störfum að nýsköpun og í sprotafyrirtækjum á Íslandi erum mörg hver með margra ára háskólanám að baki og höfum trú á því að hægt sé að skapa verðmæta vöru og þjónustu úr þeirri þekkingu sem við höfum aflað okkur. Vöru og þekkingu til útflutnings. Innan sprotafyrirtækja starfa margir öflugir sérfræðingar sem eiga völ á margs konar atvinnutækifærum. Nánast alltaf eru hærri laun í boði annars staðar.
Á Íslandi er ekki kjörlendi fyrir sprota og nýsköpun. Við þær aðstæður sem nú ríkja á Íslandi eru sprotafyrirtæki nauðbeygð að koma þróun og rekstri úr landi eins og kostur er. Á Íslandi eru fáir tilbúnir að leggja fjármuni til nýsköpunar. Vinnumarkaðurinn er allt of lítill og hér á landi er allt of fátt fólk sérmenntað í upplýsingatækni og raungreinum. Vinnuafl er dýrt og við bætist að símenntun er nauðsynleg. Tæknin úreldist fljótt og það er gríðarlega dýrt að viðhalda þekkingu og endurnýja hana. Heimamarkaðurinn er örlítill, en afar mikilvægur. Nánast fáránlega lítill miðað við erfiði og fyrirhöfn. Erlendir fjárfestar gætu tvímælalaust auðveldað sókn íslenskra sprotafyrirtækja á erlenda markaði fengjust þeir til að leggja fé í íslensk fyrirtæki. En það vilja þeir ekki og ástæðan er einföld. Íslenskt efnahagslíf er óstöðugt og menn óttast íslensku krónuna. Erlendum fjárfestum þykir rekstrarumhverfi fyrirtækja hér of áhættusamt.
Mikil hætta er á að frumkvöðlar flýi með sprotafyrirtækin úr landi til starfa í umhverfi sem býður betri vaxtarskilyrði og ákjósanlegri vinnumarkað. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar nemenda í HR sýnir að nánast öll íslensk sprotafyrirtæki eru að íhuga að flytja höfuðstöðvar sínar frá Íslandi og fá reglulega erindi eða tilboð erlendis frá með boðum um slíkt, ásamt skattaívilnunum og margs konar þjónustu og aðstoð. Þegar þetta gerist verður íslenskt atvinnulíf fábreyttara og e.t.v. er það þannig sem meirihluti fólks vill hafa það. Kannski þurfum við enga nýsköpun og kannski að þessi fáu íslensku stórfyrirtæki geti ráðið meirihluta þjóðarinnar í vinnu. Kannski það verði bara alltaf jól hjá okkur upp frá því.
Hvað er til ráða?
Þótt við séum og verðum fámenn þjóð er margt til ráða. Að mínu mati þarf að efla tækni- og raunvísindamenntun í háskólum, t.d. verkfræði og tölvunarfræði, ásamt því að efla iðnmenntun. Fjölga þarf fólki með slíka menntun á vinnumarkaðnum. Grunnur að menntun ungs fólks er lagður í grunnskóla og niðurstöður nýrrar Pisakönnunar staðfesta að mínu mati mikilvægi þess að efla enn meira stærðfræði- og raungreinakennslu í grunnskólum landsins. Við ættum að sérhæfa okkur í þróun vöru og þjónustu sem krefst ekki mikils mannafla hér á landi. Til hagræðingar má útvista hugbúnaðarþróun og ýmissi stoðþjónustu til erlendra samstarfsaðila þar sem skilyrði eru betri. Samt sem áður tel ég nauðsynlegt að skapa áhugavert starfsumhverfi hér á landi sem laðar að erlenda sérfræðinga. Til að þetta takist er nauðsynlegt að sprotafyrirtæki, háskólar og aðrar rannsókna- og menntastofnanir vinni saman. Reynum að nýta hugvit og þekkingu fólksins í þessu landi og öðrum löndum.
Sem stendur er mikill skortur á menntuðu fagfólki í tækni- og raungreinum, t.d. í tölvunarfræði og verkfræði. Ástæða er til að hvetja ungt fólk, ekki síst ungar stúlkur, til að leggja slíkt nám fyrir sig. Á sviði upplýsingatækni eru fjölmörg áhugaverð og vel launuð störf í boði. Störfin eru oftast mjög skapandi og gefa bæði kost á sveigjanlegu starfsumhverfi og vinnutíma.
Svana Helen Björnsdóttir
Verkfræðingur, framkvæmdastjóri Stika ehf, félagi í FKA og í stjórn Samtaka sprotafyrirtækja.