Förum varlega í sumarfríinu

Oil field
Olía og rafræn gögn
25/05/2019

Nú, þegar sólin er komin hátt á loft og næturnar orðnar bjartar, fara flestir að huga að sumarfríi og ferðalögum. Á ferðalögum leitast margir við að kanna nýjar og oft framandi slóðir. Það er mikilvægt að fólk hugi vel að verðmætum sínum á slíkum ferðalögum. Sumir ferðast eingöngu með farsímana en aðrir taka með sér fartölvur og spjaldtölvur.

Á ferðalögum skiptir máli að hafa alla öryggisvalmöguleika tækjanna virkjaða. Þeir sem eiga Apple tæki ættu að virkja „Find my“ þjónustu Apple sem virkar á bæði macOS og iOS tækjum. Þá geta eigendur tækjanna farið inn á iCloud síðu Apple og séð staðsetningu tækja sinna. Það sem er þó mikilvægra er að ekki er hægt að setja upp nýjan notanda á tækin. Það gerir tækin verðlaus fyrir þjófa sem ætla að reyna að nota þau eða selja. Þannig má vonandi minnka líkurnar á þjófnaði.

Aron Friðrik
Aron Friðrik Georgsson

Sömu þjónustu má líka finna hjá Google, en Android stýrikerfið er eign Google og ætti því að virka á öllum Android tækjum. Í báðum þjónustum er hægt að fá tækin til að gefa frá sér hljóð, ef leita þarf að þeim og þau finnast ekki. Þetta hefur gefist vel, t.d. ef tæki er falið í sófa eða hirslu. Einnig er hægt að læsa tækjunum og birta á skjánum skilaboð frá eigandanum um hvert eigi að skila tækinu. Ef fer í hart þá er í boði að eyða öllu út af tækjunum og þannig koma í veg fyrir að þjófurinn komist í gögnin inn á tækinu.

Í vetur birtist grein eftir Svönu Helen Björnsdóttur, vinnufélaga minn, um hættur sem tengjast „fríu“ interneti. Þær eiga enn við í dag og með núverandi lögum um reiki farsíma þá hvet ég eindregið til þess að lesendur noti frekar nettengingu símans til þess að tengjast netinu heldur en að tengjast þráðlausu og óöruggu neti sem kaffihús og veitingastaðir bjóða upp á. Óöruggar tengingar eru það sem nafnið segir og því fara öll gögn um þau ódulkóðuð og getur óprúttinn aðili auðveldlega komið sér á milli notandan og nettengingar og hlustað á öll samskipti sem eru þar send á milli ódulkóðuð.

Svo er umgengni um samfélagsmiðla einnig mikilvæg. Margir deila myndum frá sólarströnd með svellkaldan og svalandi drykk um hönd. Miðað við sumarið á síðasta ári þá var það sérstaklega skiljanlegt. En fólk verður að hafa varann á og velja þann hóp sem það deilir myndunum sínum með. Óprúttnir aðilar geta auðveldlega séð að enginn er heima og því greið leið til þess að hreinsa út af heimilinu verðmæta hluti í ró og næði. Á Facebook má velja hver sér póstanna sem settir eru þar inn og einnig má læsa síðum eins og Instagram og takmarka þannig aðgang að aðeins útvaldir vinir sjái myndir og skilaboð. Auðvitað má svo alltaf henda inn myndunum þegar komið er heim og vekja smá öfund hjá vinum og vandamönnum.

Að lokum hvet ég lesendur til að fara varlega í sumarfríinu, skilja ekki við verðmæt tækin á almannafæri og tengjast ekki óöruggum þráðlausum netum. Nota frekar símann sem netbeini en einnig að njóta frísins án þess að vera með nefið stöðugt í tækjunum. Þessi pistill er sá síðasti í röð pistla sem ég hef skrifað hér í vetur. Ég óska lesendum gleðilegs sumars. Takk fyrir mig.

Höfundur er viðskiptafræðingur og ráðgjafi í upplýsingaöryggismálum hjá Stika ehf. aron@stiki.eu

Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. júní 2019