Eldra fólki fylgja stórkostleg vandamál, virðist vera viðhorf margra í samfélagi okkar. Þetta varð tilefni sex greina undirritaðra um málefni eldra fólks í byrjun nýliðins sumars. Margir virðast telja best að leysa vandann með byggingu stöðugt fleiri hjúkrunarrýma, og e.t.v. auka nokkuð heimahjúkrun. Ef engu er breytt í nálgun þjónustunnar verður niðurstaðan ætíð hin sama. Byggja þarf árlega 50 ný hjúkrunarrými og bæta fyrir fortíðarvanda að auki. Ef þessu er ekki heldur sinnt, yfirfyllist Landspítalinn reglulega í upphafi vetrar og á vorin, þegar veikindaálag í samfélaginu er mest, og þá er fundið að því að of mikið sé af eldra fólki á sjúkrahúsinu. Þó að þessi frétt sé flutt reglulega, er efnið ekki fréttnæmt lengur fremur en gangur himintunglanna. Í greinunum var bent á að ævilíkur hafa vaxið jafnt og stöðugt auk þess sem fólk er almennt frískara lengur. Þrátt fyrir þetta þarf að hafa í huga að eldra fólk er ekki aðeins eldra miðaldra fólk. Breytileiki einstaklinganna vex mikið þegar líður á ævina; sumir eru áfram frískir en aðrir verða hrumir og jafnvel fatlaðir. Stefna stjórnvalda hefur í orði kveðnu verið að styðja við sjálfstæði eldra fólks. Til þess að bæta árangur öldrunarþjónustunnar, gæði hennar og hagkvæmni þarf framsækni og nýsköpun.
Til þess að standa við fyrirheit um stuðning við fólk í sjálfstæðri búsetu þarf að taka tillit til þess breytileika sem speglast í þörfum eldra fólks. Því fer fjarri að ein lausn henti öllum eða fábrotnar lausnir nægi. Fjölbreyttra úrræða er þörf; úrræða sem líkja má við fullskipaða sinfóníuhljómsveit sem stjórna þarf af festu og krafti til að góður samhljómur náist og flæði. Skortur á viðeigandi úrræðum á réttum tíma leiðir af sér ásókn í óhagkvæmar og lífsgæðaskerðandi lausnir. Í greinunum var bent á fjölmörg borðleggjandi úrræði sem koma mætti í framkvæmd með skýrri sýn og vilja til umbóta; úrræðum til að ná fram betri en um leið hagkvæmari heilbrigðisþjónustu. Í stað fleiri funda og greinargerða væri vert að láta nú verkin tala.
Ríkið ber þyngri hluta þjónustu við eldra fólk með langvinna sjúkdóma, svo sem heimahjúkrun, læknismeðferð, sjúkrahúss- og hjúkrunarheimilisdvöl. Sveitarfélög bera ábyrgð á félagsþjónustu við eldra fólk, svo og sérstökum þjónustuíbúðum. Mikið vantar á að þjónustuíbúðir séu í boði í sveitarfélögum. Á höfuðborgarsvæðinu er það aðeins Reykjavík sem hefur slíkar íbúðir í boði, en þær henta einkar vel fólki sem eins konar sambýli ef það er einmana og/eða með þunglyndi og kvíðaröskun. Þetta er úrræði á vegum sveitarfélaga sem þarf að vera aðgengilegt í öllum sveitarfélögum. Enn fremur þarf aðgengi að því að byggjast fremur á þörfum en fjárhag – eins og nú er í Reykjavík. Sambýlisform hentar þessum einstaklingum vel en ef það er ekki í boði er leitað stíft eftir dvöl á hjúkrunarheimili sem er allt of hátt þjónustustig, óviðeigandi fyrir fólkið og um leið er kostnaði velt yfir á ríkið. Markalínur sveitarfélaga og ríkis í þjónustunni þurfa að vera skýrar og hvor aðili verður að ábyrgjast framboð á þjónustu í samræmi við þörf. Allvel hefur verið staðið að dagdvalarúrræðum fyrir fólk með heilabilun en fjölga þarf dagdvalarúrræðum fyrir fólk með líkamlega sjúkdóma. Einnig mætti kanna helgardvöl og næturdvöl sem valkosti, þar sem við á.
Endurskoða þarf hlutverk heimahjúkrunar. Nýrrar útfærslu er þörf, þar sem heimaþjónusta og heimahjúkrun eru samhæfð sem best með aðkomu fjölfaglegs teymis að vinnunni í heimahúsum og byggt á heildrænu öldrunarmati. Öldrunarlækningadeild LSH getur mætt heilsugæslu höfuðborgarsvæðis á þessum vettvangi. Greina má þann hóp fólks sem býr við mesta fötlun og hrumleika í þeim tilgangi að forðast endurteknar komur á bráðamóttöku sjúkrahúss eða langar innlagnir með tilheyrandi færnitapi. Ein vika í rúmi kallar á tvær vikur í endurhæfingu, aðeins til að ná aftur þeirri færni sem fyrir var. Öll styrking umfram það krefst endurhæfingar í enn lengri tíma. Fólk sem nýtur þess sem nú er kallað heimahjúkrun ætti að eiga rétt á reglulegri læknisheimsókn eða vitjun, t.d. á 6 vikna fresti. Þannig er t.d. fyrirkomulag þjónustunnar í Hollandi. Með þessum hætti má endurvekja tengsl heimilislækna við fjölveikt fólk sem áður hefur notið sérfræðiþjónustu í ríkum mæli.
Heildrænt mat í heimaþjónustu þarf að innleiða á landsvísu. Með því fengist ekki aðeins mikilvægt starfstæki í daglegri þjónustu heldur einnig fullkomnar upplýsingar um stöðu eldra fólks á landinu öllu. Slík nálgun hjálpar ekki aðeins í stefnumótun, heldur getur einnig orðið grundvöllur að fjarlækningum, þar sem öldrunarlækningadeildir gætu stutt við þjónustu á heimaslóð.
LSH er stöðugt í vandræðum með legurými á hinum ýmsu deildum eftir að meira en 100 rúmum var lokað í kjölfar bankahruns. Líknardeild fyrir eldra fólk og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði var lokað vegna hagræðingarkröfu, en þær einingar þjónuðu m.a. nokkur hundruð eldri einstaklingum á ári. Um raunverulega þjónustuskerðingu við veikt eldra fólk var að ræða og fyrir vikið er starfsemi Landspítala í spennitreyju á allra bestu dögum, hvað þá við reglubundna álagstoppa. Legudeildir eru reknar á um eða yfir 100% afköstum með tilheyrandi þrengslum og gangainnlögnum. Á Vífilsstöðum voru útbúin hjúkrunarrými til bráðabirgða fyrir 42 einstaklinga sem ekki geta beðið heima eftir varanlegri dvöl á hjúkrunarheimili. LSH hefur einnig tekið í notkun gáma fyrir starfsfólk til þess að fjölga legurýmum. Ennþá liggur of margt eldra fólk á meðferðardeildum LSH og bíður eftir að komast á hjúkrunarheimili, því önnur úrræði bjóðast ekki. Um raunverulega kreppu er að ræða í starfsemi LSH sem má leysa að hluta með nýjum og nútímalegum úrræðum sem skila árangri til framtíðar. Öflug fjölfagleg teymisvinna í heimahúsi er rökrétt lausn og til þess fallin að færa víglínu öldrunarþjónustunnar frá LSH til heilsugæslunnar en fleiri hugmyndum má hrinda hratt í framkvæmd.
Hagræðingarkrafa í kjölfar bankahruns var í raun ósamrýmanleg þeirri þörf fyrir þjónustu sem til staðar er. Það er nauðsynlegt að bæta fjárhagsstöðu LSH um leið og leitað er leiða til nýsköpunar. Hjá stjórnendum LSH hafa komið fram tvær hugmyndir sem eru til þess fallnar að auka gæði í sjúkrahúsþjónustu. Önnur hugmyndin felst í opnun sérstakrar öldrunargeðdeildar, hin er svonefnt „heimasjúkrahús“. Fyrir réttum sjö árum, í október 2008, lágu fyrir fullmótaðar hugmyndir að öldrunargeðdeild á Landakoti og voru þær meðal forgangsverkefna þáverandi heilbrigðisráðherra. Fjármálahrunið kom í veg fyrir að öldrunargeðdeildin yrði að veruleika. Þörfin er engu minni nú en þá og telja má að geðheilbrigðisþjónusta sé nú einn veikasti hlekkurinn í þjónustu við eldra fólk. Samofin líkamleg og geðheilbrigðisþjónusta getur skilað miklum og góðum árangri, bætt lífsgæði og forðað fólki frá hjúkrunarheimilisdvöl. Nú er slík þjónusta ekki í boði og er það slæmt.
LSH getur gert eitt enn til þess að fjölga legurýmum án þess að byggja viðbótarhúsnæði, eins nauðsynleg og endurnýjun LSH við Hringbraut er. Það er að hrinda í framkvæmd hugmyndinni um heimasjúkrahús sem hefur gefist mjög vel víða um heim. Samkvæmt þeim hugmyndum mætti finna þá sem þurfa sérhæfða almenna lyflæknisþjónustu um skeið en gætu notið hennar heima með því að sjúkrahúsið annist fólkið heima þann takmarkaða tíma sem þarf, eftir að greiningarvinnu á bráðamóttöku er lokið. Samhliða er þetta mjög gott menntunartækifæri fyrir lækna í sérnámi í almennum lyflækningum. Heimahúsin í bænum útvega legurými. Þar eru ekki spítalasýkingar eða ókunnugt umhverfi. Rannsóknir sýna að fólk kann að meta þetta og telur lífsgæði sín betri en ella.
Nóg er rætt. Starfsmenn og stjórnendur stjórnsýslu, félags- og heilbrigðismála ættu nú að setja á sig hlaupaskóna og drífa í þeim málum sem eru margrædd og borðleggjandi að skila auknum gæðum og hagkvæmni í öldrunarþjónustu og mæta um leið stefnumótuninni í málefnum eldra fólks. Þar segir að styðja skuli fólk til sjálfsbjargar og sjálfstæðrar búsetu svo lengi sem kostur er.
Pálmi V. Jónsson er yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Svana Helen Björnsdóttir er verkfræðingur, stofnandi og stjórnarformaður Stika og fv. formaður Samtaka iðnaðarins. Höfundar starfa saman að nýsköpun í þjónustu við eldra fólk.