Um þessar mundir er heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að taka í notkun nýtt tölvukerfi
fyrir vistunarmat aldraðra. Kerfið er þróað hjá Stika og mun valda byltingu í framkvæmd vistunarmatsins. Með tilkomu þess mun sending eyðublaða og ljósrita með matsupplýsingum einstaklinga á milli stofnana heyra sögunni til. Þeir aðilar sem þurfa munu fá aðgang að kerfinu og geta þar flett upp þeim upplýsingum sem þeir hafa þörf fyrir.
Aldrað fólk sem sækir um vist á dvalar- og hjúkrunarheimilum gengst undir mat á þörf fyrir vistun. Það er framkvæmt í samræmi við lög nr. 125/1995 um málefni aldraðra. Vistunarmatið var fyrst lögfest hér á landi árið 1990 til að tryggja að allir sitji við sama borð við mat á þörf þegar óskað er eftir langtímavist á stofnun. Jafnframt sinnir það því markmiði að þeir sem mesta hafa þörfina njóti forgangs.
Vistunarmatskerfið verður sett upp hjá öllum þjónustuhópum aldraðra á landinu, en þeir eru um 40 talsins. Lögum samkvæmt framkvæma starfsmenn þjónustuhópanna vistunarmat.
Jafnframt fá valdir starfsmenn allra dvalar- og hjúkrunarheimila á landinu aðgang að kerfinu. Þar munu þeir sjá biðlista eftir vistun á sínu heimili og geta skráð einstaklinga af honum í vistun. Dvalar- og hjúkrunarheimilin eru um 80 talsins.
Tengingar allra þessara staða fara fram innan lokaðs fjarskiptanets og öll samskiptin eru dulkóðuð til að tryggja öryggi persónuupplýsinga. Vinnsla kerfisins hefur verið tilkynnt til Persónuverndar, sjá tilkynningu nr. S1494 á vef Persónuverndar.
Undanfarið hefur verið annríki hjá starfsmönnum Stika við að hafa samband við þá aðila sem nota munu kerfið og aðstoða þá við uppsetningu þess. Ætla má að um það bil helmingur staða sé þegar tengdur og með hugbúnað uppsettan. Hinir munu bætast við á næstu vikum.