Fyrirmyndarkvenfrumkvöðlar

Stiki
Nýsköpun eða atvinnuleysisbætur?
26/05/2009
Stiki hlaut Gæfuspor FKA 2010
02/03/2010

Í byrjun október 2009 komu alls 100 evrópskar konur saman í Stokkhólmi til að veita viðtöku sérstakri viðurkenningu sem fyrirmyndarfrumkvöðlar. Konurnar eru frá tíu Evrópulöndum og starfa allar í eigin fyrirtækjum. Þeim er ætlað að vera öðrum konum fyrirmynd í stofnun og rekstri fyrirtækja. Svana Helen Björnsdóttir verkfræðingur, forstjóri og stofnandi Stika, er ein þessara kvenna.


Svana Helen Björnsdóttir er í efri röð lengst til vinstri ásamt evrópskum kvenfrumkvöðlum tíu landa. Fyrir miðri mynd eru Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar, Maud Olofsson, iðnaðar- og orkumálaráðherra Svíþjóðar og staðgengill forsætisráðherra og Vladimir Spidla fyrrum forsætisráðherra Tékklands og núverandi framkvæmdastjóri atvinnu- og jafnréttismála hjá ESB.

Það var starfshópur frá Impru og frá Evrópumiðstöð Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands ásamt aðilum í Enterprise Europe Network í Danmörku og Noregi sem saman völdu fyrirmyndarkvenfrumkvöðla Íslands, Danmerkur og Noregs vegna verkefnisins EU Network of Female Entrepreneurship Ambassadors.
Alls taka tíu Evrópulönd þátt í þessu verkefni en markmið þess er velja kvenfrumkvöðla sem geta verið fyrirmyndir annarra kvenna í þessum löndum varðandi stofnun og rekstur fyrirtækja. Við val á „ambassadorum“ frá Íslandi, Danmörku og Noregi var fremur leitað eftir konum sem stunda rekstur í „karllægu“ rekstrarumhverfi eins og upplýsingatækni, byggingatækni og öðrum hátæknigreinum.  Rekstur sem bæri þar að auki í sér sköpun starfa og stuðlaði þar með að auknum hagvexti. Það voru margar frábærar konur kallaðar en fáar útvaldar. Þau lönd sem tilnefndu fyrirmyndarkvenfrumkvöðla eru auk Íslands, Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Írland, Pólland og Slóvenía.

Fyrsta verkefni þessara fyrirmyndarfrumkvöðla var þátttaka í opnun verkefnisins í Stokkhólmi 5. október 2009. þar sem Viktoría krónprinsessa afhenti einni konu frá hverju hinna tíu Evrópulanda sérstakt heiðursskjal, en allar 100 konurnar fengu slíkt skjal.

Þetta Evrópuverkefni til stuðnings við atvinnusköpun kvenna mun taka tvö ár og munu kvenfrumkvöðlarnir taka þátt í ráðstefnum og fundum í sínu heimalandi og annars staðar þar sem þess verður óskað. Þar munu konurnar segja frá stofnun fyrirtækja sinna og miðla reynslu af rekstri þeirra.
Fyrirmyndarkvenfrumkvöðlar Íslands eru auk Svönu Helenar Björnsdóttur hjá Stika, þær Vilborg Einarsdóttir hjá Mentor og Halla Tómasdóttir og Kristín Pétursdóttir hjá  Auði Capital.

Í desemberhefti tímaritsins Enterprise & Industry frá 2009 er grein um kvenfrumkvöðla og viðtal við Svönu. Sjá: Hér!