Gamalt fólk er mjög ólíkt öðru fólki

Stiki
Ævintýrið sem við lifum
01/06/2015
Heilbrigðis- og félagsþjónusta
Heilbrigðis- og félagsþjónusta í fjötrum fortíðar
15/06/2015
Stiki

Eftir Pálma V. Jónsson og Svönu Helen Björnsdóttur

Flestir lifa nú langt inn á þriðja aldursskeiðið. Þá blasir við nýr raunveruleiki. Eldra fólk er í raun gjörólíkt miðaldra fólki. Líkaminn tekur víðtækum og miklum breytingum með aldri og þær stigmagnast með vaxandi aldri. Ekkert líffærakerfi er undanskilið. Vegna þess hve algengar þessar breytingar eru er tilhneiging til að líta á þær sem eðlilegar. Litið er fram hjá því að aldurstengdar breytingar eru þegar fram í sækir ígildi sjúkdóma, þó að þær birtist ekki sem slíkar á sjúkdómsgreiningalistum.

Pálmi V. Jónsson

Tökum nokkur dæmi. Æðakerfið stífnar með aldri. Af því leiðir hækkun efri marka blóðþrýstings. Slagbilsháþrýstingur er sterkasti áhættuþáttur hjarta- og heilaáfalla. Hjartavöðvinn stífnar vegna aukningar á bandvef sem getur leitt til hjartabilunar með tilheyrandi vökvamyndun í lungum og mæði. Bein taka að rýrna eftir 25 ára aldur hjá báðum kynjum og konur upplifa hratt beinmassatap á áratugnum eftir tíðahvörf. Afleiðingarnar eru vaxandi brotatíðni með aldri eftir sextugt, t.d. úlnliðs-, hrygg- og mjaðmabrot. Vöðvar rýrna og um sjötugt er vöðvamassi fólks um þriðjungi minni en við 25 ára aldur. Við það minnkar einnig snerpa. Vöðvarýrnun í bland við aðrar breytingar og sjúkdóma stuðlar að göngulagstruflunum og byltum. Blöðruhálskirtill karla stækkar með aldri og getur að lokum leitt til þvagteppu, blöðrulömunar og jafnvel nýrnabilunar ef ekkert er að gert. Allt eru þetta dæmi um aldurstengdar breytingar sem eru svo almennar og algengar að margir telja þær jafnvel eðlilegar. En hinar margvíslegu afleiðingar þessara breytinga segja okkur að svo er ekki. Þær eru ígildi sjúkdóma. Sem slíkar eru þær viðfangsefni læknavísindanna sem reyna að mæta þeim með rannsóknum og meðferðarúrræðum til að milda breytingarnar og forðast margar af afleiðingum þeirra. Rétt eins og um meðferð við sjúkdómum væri að ræða. Einstaklingarnir geta einnig sjálfir mildað aldurstengdar breytingar með heilbrigðum lífsstíl og hreyfingu.

Svana Helen Björnsdóttir

Auk aldurstengdra breytinga í öllum líkamanum safnar eldra fólk á sig langvinnum sjúkdómum, ef svo má að orði komast. Það er eins konar náttúrulögmál að langvinnir sjúkdómar, hvort heldur um er að ræða heilabilun, mjaðmabrot eða annað, tvöfaldast á hverjum 5 árum eftir 65 ára aldur. Ef algengi sjúkdóms er t.d. 2% við 65 ára aldur verður algengi sjúkdómsins 32% við 85 ára aldur. Af þessu leiðir reyndar óvænt að með því að seinka framkomu sjúkdóms um 5 ár má draga úr fjölda þeirra sem hafa einkenni um 50%. Ef algengi sjúkdóms við 70 ára aldur er 1% í stað 2% verður fjöldi þeirra sem hafa sjúkdóminn við 85 ára aldur 16% í stað 32%. Að óbreyttum ævilíkum myndi fleira fólk lifa lengur við betri heilsu og stórlega drægi úr heilbrigðiskostnaði ef unnt væri að seinka framkomu langvinnra sjúkdóma.

Við 85 ára aldur má búast við að hver einstaklingur hafi auk víðtækra aldurstengdra breytinga þrjá til fjóra langvinna sjúkdóma. Af þessu sama leiðir að búast má við að fólk á þessum aldri taki að meðaltali 6 til 7 lyf. Birtingarmynd sjúkdóma getur breyst mjög með aldri vegna aldurstengdra breytinga, annarra sjúkdóma og lyfja sem tekin eru. Þannig hverfa mörg af helstu einkennum einstakra sjúkdóma. Í stað hefðbundinna einkenna sjást hins vegar ósértæk sjúkdómseinkenni, svo sem óráð, byltur, þyngdartap og hrumleiki, svo að dæmi séu tekin. Summa aldurstengdra breytinga, sjúkdóma og lyfja kemur einnig fram í færnitapi, sem getur bæði verið líkamlegt og vitrænt. Samhliða þessu gengur margt eldra fólk iðulega í gegnum miklar félagslegar breytingar við missi maka, barna eða vina. Við þetta bætist að fjárhagsleg staða fólks er ekki alltaf sterk á þessum árum. Einsemd, depurð og kvíði getur því fylgt efstu árum hjá sumu eldra fólki. Myndin sem hér er dregin upp er nokkuð ógnvænleg en munum að þessi staða kemur í lok lengri ævi en nokkrar aðrar kynslóðir hafa lifað og vísbendingar eru um að enn megi seinka einkennum aldurstengdra breytinga og langvinnra sjúkdóma nokkuð og þjappa veikindum og færnitapi saman á skemmra tímabili í lok þriðja æviskeiðsins.

Ekki eldast allir á sama hátt. Í fyrsta lagi eru aldurstengdar breytingar ekki jafndreifðar um líkama einstaklings. Þannig getur hjartað verið betur á sig komið en nýrun. Einnig vex breytileiki einstaklinga stórlega með aldri. Þannig er líklegt að einstaklingur sem hlotið hefur menntun, sinnt ögrandi verkefnum, hreyft sig reglulega, forðast reykingar og drukkið áfengi í hófi, sé betur á sig kominn en sá sem hefur enga menntun hlotið, unnið einhæft starf, kosið kyrrsetu fremur en að hreyfa sig, reykt og drukkið í óhófi. Breytileiki einstaklinga vex því eftir því sem fólk eldist. Þessi breytileiki er iðulega vanmetinn af fagfólki sem ekki hefur kynnt sér viðfangsefni eldra fólks sérstaklega. Að þessu leyti er eldra fólk gjörólíkt miðaldra fólki. Hinn breytti raunveruleiki eldra fólks kallar á nýja hugsun og nýja nálgun. Hvernig má greina og mæta þörfum eldra fólks?

Rannsóknir hafa sýnt að svokallað einstaklingsbundið heildrænt öldrunarmat er nauðsynlegt til þess að ná tökum á hinum flókna veruleika eldra fólks. Ekki nóg með það. Það er ekki á færi neins eins faghóps að leysa málið. Lykill að árangri er að vinna að hinu heildræna mati í teymisvinnu margra faghópa, til dæmis lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkra- og iðjuþjálfara og félagsráðgjafa, auk margra annarra fagaðila í einstökum tilfellum. Sýnt hefur verið fram á að heildrænt öldrunarmat skilar miklum árangri. Rannsóknir sýna m.a. að slíkt mat leiðir af sér færri lyf, aldursvænni lyf, bætta greiningu og meðferð sjúkdóma, bætta líkamlega og vitræna færni – og þannig betri lífsgæði. Þannig mætti fækka þeim sem þurfa á hjúkrunarheimilisdvöl að halda jafnframt því sem dvalartími á hjúkrunarheimilum styttist. Öllu þessu er unnt að ná fram með lækkuðum tilkostnaði frá því sem nú er. Til þess að slíkur árangur náist er nauðsynlegt að umbylta þjónustunni, taka upp nýja hugsun, nýja nálgun og efla menntun allra sem að þjónustu við eldra fólk koma.

Pálmi V. Jónsson er yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Svana Helen Björnsdóttir er verkfræðingur, stofnandi og stjórnarformaður Stika og fv. formaður Samtaka iðnaðarins. Höfundar starfa saman að nýsköpun í þjónustu við eldra fólk.