Gervigreind

Callcenter headset
Öryggisveilur heilbrigðisupplýsinga í Svíþjóð – Vottaðir samstarfsaðilar
23/02/2019
Vefveiðar
09/03/2019
Gervigreind

/Mynd frá techcrunch.com

Svana Helen Björnsdóttir skrifar:

Gervigreind, á ensku Artificial Intelligence (AI), er orð sem notað er yfir tölvuforrit sem líkja eftir mannlegri greind og (virðast) geta leyst ýmiss konar verkefni með sjálfstæðum hætti.

Sumir kalla gervigreind “síðustu uppfinningu mannkynsins“ vegna þess að með tilkomu „alvöru“ gervigreindar gætu tölvur gert fleiri uppfinningar manna óþarfar. Nái þetta fram að ganga þýðir það að gervigreind mun taka manninum fram á margan hátt. Þessi sýn hefur á ensku verið nefnd „technological singularity“, og mætti á íslensku kalla tæknilega sérstöðu. Tilgátan sem sett er fram í þessari tæknisýn er sú, að uppfinningar sem gerðar verða með tilstuðlan gervigreindar muni taka uppfinningum manna fram og leiða til tækniframfara og breytinga á menningu alls mannkyns.

Svana Helen Björnsdóttir
Svana Helen Björnsdóttir

Breski stærðfræðingurinn, Alan Turing, var frumkvöðull í gerð tölva og forritunar. Hann er einnig talinn  brautryðjandi á sviði gervigreindar. Hann bjó til hið svokallaða Turing-próf á sjöunda áratugnum en viðfangsefni prófsins er aðgreining manns og vélar. Prófið er framkvæmt þannig að spyrill tekur viðtal við manneskju og tölvu, án þess að vita hvort svarandinn er maður eða tölva. Prófið metur gervigreind á þann veg að standist forrit prófið líkir það mjög vel eftir hegðun manns og felur þar með í sér „sterka“ gervigreind.

Hugtakið gervigreind er oft notað um kerfi sem aðeins virðast hafa einhverja, svolitla, greind til að bera. Dæmi um þetta eru andstæðingar í tölvuleikjum. En gervigreind má nota á marga mismunandi vegu. Nú geta t.d. skáktölvur sigrað alla bestu skákmeistara heims.

Á okkar tímum hefur gervigreind fundið sér farveg inn á mörg svið atvinnulífs og dagslegs lífs fólks. Nægir þar að nefna sýndaraðstoð og þjónustu sem fá má í gegnum tækin Alexu og Siri. Fólk getur talað við tækið úr talsverðri fjarlægð og spurt margvíslegra spurninga, m.a. um veðrið á morgun, fengið tónlist leikna og kveikt og slökkt ljós. Einnig má með farsíma stýra ryksuguróbóta án þess þó að vera á svæðinu – og vera jafnvel staddur í öðru landi.

Margar gervigreindarlausnir byggja á því að fólk láti af hendi persónulegar upplýsingar um sjálft sig, ferðir sínar, athafnir og skoðanir. Sumir láta upplýsingar af hendi óafvitandi um að þeim er safnað og úr þeim unnið. Aðrir líta svo á að tímarnir séu breyttir og persónuvernd megi ekki hindra framgang tæknilausna og þjónustu sem bætir lífskjör fjölda fólks. Tímarnir séu að breytast og nú viti hvort eð er allir allt um alla; þökk sé hinum svokölluðu samfélagsmiðlum.

Mörg dæmi eru um að stórfyrirtæki hafi grætt mikið á persónuupplýsingum um fólk. Nýju evrópsku og íslensku persónuverndarlöggjöfinni, sem sett var um mitt síðasta ár, er ætlað að sporna við yfirgangi fyrirtækja og vernda einkalíf fólks betur en áður var. Það sýnir sig þó að lögin koma á eftir tækniframförunum og ná vart að halda í við þróunina, svo hröð er hún.

Við sem einstaklingar ættum ávallt að huga að öryggi og áhættu þegar kemur að kaupum á tæknilausnum og þjónustu. Leitum að og skoðum upplýsingar um öryggisstefnu, persónuverndarstefnu, faggildar öryggisvottanir og annað slíkt. Það ætti að auðvelda okkur að finna aðila sem við treystum og velja milli aðila sem við eigum samskipti eða viðskipti við.

Höfundur er verkfræðingur og framkvæmdastjóri Stika ehf. svana@stiki.eu

Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu 2.3.2019