Aron Friðrik Georgsson skrifar:
Ein af grunnhugmyndum kapítalisma hefur verið að nýta auðlindir náttúrunnar og vinna úr þeim vörur sem fólk vill kaupa. Samfara þessu þróaðist sú hugmynd að breyta þekkingu í vöru, t.d. með því að skrifa hana niður og selja, svo sem bækur. Með tímanum hefur úrvalið af þekkingu aukist jafnt og þétt. Með hinni stafrænu byltingu varð auðveldara en nokkru sinni fyrr að selja þekkingu og nánast hver sem er getur nýtt sér upplýsingatækni til að kynna og selja þekkingu sína og vöru – án milliliða. Þetta á við um bækur, rafbækur, hljóðbækur, fyrirlestra, myndbönd, tölvufundi, vefsíður á borð við Wikipedia og margs konar hugbúnað. Allt þetta er einhvers konar form af þekkingu, auðlind sem er óþrjótandi og auðdeilanleg. Reyndar þykir hún stundum full auðdeilanleg þegar kemur að ólöglegri dreifingu.
Gríðargögn (e. big data) er eru grunnur að viðskiptalíkani þriggja stærstu fyrirtækja heims í dag. Google fer þar fremst í flokki, þar á eftir koma Facebook (FB) og svo Amazon. Með greiningu á gríðarlegu magni af upplýsingum um notendahegðun hafa þessi fyrirtæki búið til algjörlega nýja gerð viðskiptalíkana. Þessi fyrirtæki breyta ekki hugviti í vöru (nema auðvitað í byrjun) heldur safna þau upplýsingum um hegðun fólks og greina þær með ýmsum hætti. Slík greining er svo notuð til að sérsníða auglýsingar að notendum. Notendur skoða nýja bankaþjónustu á vefnum og svo sjá þeir auglýsingar um þá bankaþjónustu á samfélagsmiðlum nær samstundis, og áfram næstu vikur. Shoshana Zuboff, prófessor við Harvard Business School, kallar þetta eftirlitskapítalisma (e. surveillance capitalism). Nýlega kom út bók eftir Zuboff þar sem hún fjallar ítarlega um þetta efni.
Í september 2012 birtust í tímaritinu Nature niðurstöður rannsóknar sem Facebook (FB) framkvæmdi á notendum sínum. FB ákvað að skipta notendum sem voru yfir 18 ára aldri og búsettir í USA í þrjá hópa. 60.000.000 manns fóru í stærsta hópinn og fékk hann skilaboð um hvar næsti kosningarstaður væri. Einnig gátu þessir notendur ýtt á hnappinn „Ég kaus“ og þeir sáu hvaða vinir hefðu líka kosið. Til viðmiðunar fóru 611.000 notendur í hóp sem fékk sömu skilaboð og hnapp en gátu ekki séð hvaða vinir hefðu merkt við „Ég kaus“ hnappinn. Svo var enn annar viðmiðunarhópur af 611.000 notendum sem fengu engin skilaboð. Lokaniðurstaðan var sú að viðmiðunarhóparnir hegðuðu sér svipað, en stóri hópurinn sem hafði upplýsingar um hvað vinirnir kusu var líklegri til að mæta á kjörstað. Metur FB að 60.000 fleiri hafi mætt á kjörstaði í kjölfar þess eins að hafa fengið skilaboð um hvar kjörstaðir væru. Þá hafi 280.000 fleiri notendur mætt á kjörstaði þegar þeir sáu að vinir þeirra væru búnir að kjósa.
Þarna segir FB okkur beinlínis að vefurinn geti haft áhrif á hversu margir kjósa og með því að safna saman öllum þessum hegðunarupplýsingum þá veit vefurinn líklega hvernig notendur hans muni kjósa. Hvar liggur þá línan á milli þess að koma með auglýsingu um vöru sem gæti hentað notandanum og að hafa bein áhrif á hvað hann kaupir eða kýs?
Þessi markaður er ennþá nýr og í mótun, en eins og við ákváðum að vernda tilteknar auðlindir gegn ofnýtingu, þá er spurning hvort ekki sé þörf á að vernda neytendur fyrir greiningartólum tæknirisanna. Það er a.m.k. ástæða til að hafa varann á sér og skoða með gagnrýnum hætti þær upplýsingar sem okkur berast – ekki aðeins á 1. apríl.
Höfundur er viðskiptafræðingur og ráðgjafi í upplýsingaöryggismálum hjá Stika ehf. aron@stiki.eu
Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. apríl 2019