Heilbrigðis- og félagsþjónusta í fjötrum fortíðar

Stiki
Gamalt fólk er mjög ólíkt öðru fólki
09/06/2015
Áskornunin í öldrunarþjónustu: fjölbreytileiki og samhæfing
20/06/2015
Heilbrigðis- og félagsþjónusta

Eftir Pálma V. Jónsson og Svönu Helen Björnsdóttur

Heilbrigðis- og félagsþjónusta við eldra fólk eins og hún er skipulögð nú byggir á tæplega hálfrar aldar hugmyndafræði. Fyrir hálfri öld voru ævilíkur tíu árum skemmri en nú. Þriðja æviskeiðið var í burðarliðnum og færra fólk glímdi við aldurstengdar breytingar og langvinna sjúkdóma. Sjúkdómar voru fyrst og fremst bráðir og aðeins þörf á að leysa eitt vandamál í einu. Heilsugæslustöðvar voru byggðar um land allt. Borgarspítalinn opnaði í Reykjavík.

Pálmi V. Jónsson

Margvíslegar nýjungar hafa verið innleiddar í sjúkrahúsþjónustu á tímabilinu sem gagnast eldra fólki afar vel, til dæmis liðskiptiaðgerðir, hjarta- og æðaaðgerðir og augnsteinaskipti. Í heilbrigðisþjónustu hefur teymisvinna með skilgreindum verkferlum verið tekin upp í ýmsum verkefnum. Víða hefur þetta skilað frábærum árangri, m.a. í starfsemi gjörgæslu- og vökudeilda, í mæðra- og ungbarnavernd og í starfsemi göngudeildar fyrir sykursjúka svo dæmi séu nefnd. Vegna þess hve verkefnin geta verið flókin er nauðsynlegt að leysa þau í teymisvinnu. Meginforsenda heilbrigðisþjónustunnar síðastliðin 50 ár hefur verið að aðeins sé tekist á við eitt verkefni í senn í annars heilbrigðum einstaklingi. Heilbrigðisþjónustan hefur haft á að skipa vel menntuðu og metnaðarfullu starfsfólki sem unnið hefur eftir þessari hugmyndafræði. Þær hugmyndafræðilegu forsendur eru brostnar þegar kemur að þriðja æviskeiðinu.

Ævintýrinu sem við lifum fylgja breyttir tímar og þriðja æviskeiðið kallar á nýja nálgun og nýjar lausnir í heilbrigðisþjónustu auk umfangsmikillar grunnmenntunar og endurmenntunar. Raunveruleikinn blasir við. Um og yfir helmingur fólks sem liggur nú á Landspítala er eldra fólk og með tímanum mun hlutfallið aðeins vaxa. Samnorræn rannsókn á fólki 75 ára og eldra sem lagðist brátt inn á lyflækningadeildir sýndi að 60% þess hafði langvinnt vandamál eða nýtt vandamál til viðbótar við langvinnt. Tæpur helmingur hafði vitræna skerðingu á einhverju stigi en liðlega helmingur var með skerta færni í líkamlegum athöfnum daglegs lífs. Um 60% nutu þjónustu heimahjúkrunar. Einn þriðji hafði áður lagst inn á síðustu þremur mánuðum. Í sjúkraskrá einstaklinga höfðu lækna- og hjúkrunarfræðingar aðeins skráð helming meðvirkra sjúkdóma og færnitaps. Á sama tíma neyðast læknar og hjúkrunarfræðingar oft til að skrá sömu upplýsingar tvisvar vegna skorts á samþættingu og samhæfingu þjónustuþátta. Við þetta mætti hugsanlega búa ef upplýsingarnar hefðu enga þýðingu. En svo er ekki. Með upplýsingum um alla virka sjúkdóma, samspil þeirra og færni er unnt að spá fyrir um afdrif fólks allt upp í eitt ár eftir útskrift. Afdrif fólks í samnorrænu rannsókninni að ári liðnu voru þau að einungis 20% höfðu útskrifast heim og ekki lagst inn aftur á sjúkrahúsið. Fjórðungur var látinn og 11% hafði flust á hjúkrunarheimili. Nær helmingur hópsins hafði endurtekið lagst á sjúkrahús á árinu. 

Svana Helen Björnsdóttir

Tíðar endurinnlagnir stinga í augun og vekja upp spurningu um það hvort eldra fólk fái rétta þjónustu á réttum tíma og á réttum stað. Enn ein áhugaverð vísbending kom út úr ofangreindri rannsókn. Upplýsinga sem spá um horfur er ekki aðeins hægt að afla við innlögn. Sambærilegar upplýsingar er hægt að nálgast fyrir innlögn einstaklings, enda eru flestir með langvinn vandamál þegar í umsjá heimahjúkrunar.

Önnur íslensk rannsókn, sem nýtti sér heildrænt öldrunarmat, bar saman fólk í heimahjúkrun og á hjúkrunarheimilum. Svo dæmi séu tekin, þá hafði eldra fólk sem naut heimahjúkrunar meiri bjúg, fann fyrir meiri mæði, svima og verkjum en fólk á hjúkrunarheimilum, en þar býr þó að jafnaði veikara fólk. Þegar skipulag þjónustunnar er skoðað kemur í ljós að á hjúkrunarheimilum starfa margir faghópar saman í teymum en slík teymisvinna er ekki til staðar við heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu. Gæti það skýrt þennan mun?

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur í veigamiklum atriðum misst tökin á þjónustu við eldra fólk. Miðaldra fólk leitar mjög gjarnan til sérfræðinga sem oft senda fólk sín á milli. Þegar halla fer undan fæti kemur heimahjúkrun inn í myndina. Heimahjúkrun er miðlæg og byggir ekki á hugmyndafræði um fjölfaglega teymisvinnu. Sambandið við heimilislækninn er iðulega löngu rofið þegar kemur að heimahjúkrun í lífi fólks. Segja má að bæði heilsugæsla og sérfræðingsþjónusta séu máttlausar í útfærslu á þjónustu við langveikt fólk. Þjónustan er útfærð af einyrkjum fremur en teymum og byggir á tæplega hálfrar aldar gamalli hugmyndafræði, sem tekur ekki tillit til raunveruleika þriðja aldursskeiðsins.

Það ræður enginn einn faghópur við að veita eldra langveiku fólki heildstæða þjónustu. Með því er ekki kastað rýrð á einstaka vel menntaða og metnaðarfulla fagmenn. Kerfið er einfaldlega ekki hannað til þess að taka á hinum flóknu og fjölþættu viðfangsefnum sem einkenna gamalt fólk. Afleiðingin er sú að veikt eldra fólk sér ekki önnur úrræði en leita endurtekið til bráðamóttöku Landspítala. Þá er stutt í hugmyndina um innlögn viðkomandi á hjúkrunarheimili. Skyldi það vera besta hugmyndin? Flugfélög hafa þróað sérstaka vildarþjónustu fyrir þá sem fljúga oft. Heilbrigðisþjónustan á enn eftir að þróa vildarþjónustu fyrir veikt eldra fólk. Gæti það verið góð hugmynd? Ef svo er, í hverju gæti slík vildarþjónusta verið fólgin?

Pálmi V. Jónsson er yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Svana Helen Björnsdóttir er verkfræðingur, stofnandi og stjórnarformaður Stika og fv. formaður Samtaka iðnaðarins. Höfundar starfa saman að nýsköpun í þjónustu við eldra fólk.