Innleiðing upplýsingaöryggis hjá Stjórnarráði Íslands skv. öryggisstaðli ISO

Hlýtur öryggisvottun Breta:
25/06/2002
Ferilsathugun (Case Study) hjá BSI
27/11/2002

Haustið 2001 ákvað Stjórnarráð Íslands að byggja upp öryggiskerfi hjá ráðuneytunum sem miðaði við öryggisstaðalinn ISO 17799. Nauðsynlegt var talið að leita út fyrir Stjórnarráðið eftir ráðgjöf og aðstoð við þá sérhæfðu vinnu. Því var leitað til þeirra fyrirtækja sem talið var að byggju yfir sérþekkingu og reynslu varðandi öryggiskerfi byggð á þessum staðli. Var óskað eftir tilboðum frá þeim í verkið. Auk tilboðs frá Stika bárust tvö önnur tilboð. Starfshópur á vegum Stjórnarráðsins fór yfir tilboð fyrirtækjanna. Niðurstaðan varð sú að í byrjun árs 2002 var gengið til samninga við Stika um að annast framkvæmd verksins í samvinnu við ráðuneytin.

Allt þetta ár hefur staðið yfir innleiðing á öryggisstaðlinum ISO 17799 í öllum 14 ráðuneytum Stjórnarráðsins. Stiki hefur unnið að framkvæmd þessarar innleiðingar í samvinnu við stýrihóp Stjórnarráðsins og starfsmenn í öllum ráðuneytum. Nýlega lauk fyrsta áfanga verksins með því að Stiki afhenti Stjórnarráðinu öryggishandbækur og áhættumat sem gerð hafa verið fyrir hvert ráðuneyti. Verkið hófst í byrjun árs 2002 með því að safnað var upplýsingum um starfsemi allra ráðuneyta. Útbúnir voru spurningalistar sem sendir voru til tengiliða í öllum ráðuneytum. Spurningarnar fylgdu staðlinum ISO 17799 og voru svörin við þeim færð í gagnagrunn til frekari úrvinnslu. Í framhaldi af því voru öll ráðuneytin heimsótt á vordögum. Fundað var með starfsmönnum, húsnæði skoðað og leitað staðfestingar á svörum við spurningalista. Í náinni samvinnu við stýrihóp verkefnisins voru ritaðar verkferlar og öryggishandbók fyrir hvert ráðuneyti. Í ágúst var lokið við áhættugreiningu og í byrjun september lá fyrir áhættumat fyrir hvert ráðuneyti.

Verkið stóðst kostnaðaráætlun. Í verksamningi segir að þessum hluta verksins skuli að fullu lokið 31. desember 2002 og eru því verklok vel innan tímaáætlunar. Stýrihóp Stjórnarráðsins skipuðu: Angantýr Einarsson, fjármálaráðuneyti Eiríkur Hilmarsson, Hagstofu Íslands Björn Haraldsson, Rekstrarfélag stjórnarráðsbygginga Oddur Magnússon, Rekstrarfélag stjórnarráðsbygginga Verkefnisstjóri f.h. Stjórnarráðsins var Pétur Hlöðversson. Verkið var unnið af starfsmönnum Stika. Verkefnisstjóri f.h. Stika var Svana Helen Björnsdóttir og henni til aðstoðar var Steffi Botzelmann.