Klappir og Stiki sameinast

Förum varlega í sumarfríinu
01/06/2019

Hugbúnaðarfélögin Klappir grænar lausnir hf. og Stiki ehf. hafa undirritað samkomulag um samruna félaganna. Félögin hafa átt farsælt samstarf og sjá margvíslegan ávinning af nánara samstarfi. Við samrunann munu Klappir yfirtaka rekstur Stika og munu eigendur Stika fá afhentan hlut sinn gegn hlutabréfum í Klöppum. Starfsmenn sameinaðs félags verða um 30 talsins.

Markmiðið er að efla nýsköpun í upplýsingatækni á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Þá treystir samruninn betur forsendur alþjóðlegrar dreifingar á hugbúnaði fyrirtækjanna en hugbúnaðalausnir þeirra vinna allar að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni.

Klappir bjóða hugbúnaðarlausnir á sviði umhverfis- og loftslagsmála sem eru meðal allra fremstu upplýsingakerfa sinnar tegundar í heiminum. Stiki, sem er öryggisvottað fyrirtæki, hefur um árabil unnið að hugbúnaðargerð á sviði áhættustjórnunnar, upplýsingaöryggis, heilsumats og þjónustu við heilbrigðisgeirann. Hugbúnaðarlausnir Stika fyrir áhættugreiningar, áhættumat, áhættustjórnun og heilsumat munu að loknum samruna bætast við lausnaframboð Klappa. Þannig verða RAI heilsumatskerfi Stika og Risk Management Studio færð yfir í lausnagrunn Klappa.

Stiki er í dag í eigu Svönu Helenar Björnsdóttur, framkvæmdastjóra og stofnanda Stika, Bjarna Þórs Björnssonar og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Klappir eru skráðar á First North hlutabréfamarkað Kauphallar Íslands.

„Áhættugreiningar, áhættumat, áhættustjórnun ásamt heilsumati eru að verða einn af lykilþáttum á sviði loftslagsmála. Það fer vel á því að Klappir og Stiki samþætti hugbúnaðarlausnir sínar þannig að lausnarframboð sameinaðs félags geti tekið á öllum þáttum loftslagsmála. Fyrirtæki og stofnanir víða um heim standa frammi fyrir því að ná þeim markmiðum á sviði umhverfis- og loftslagsmála sem lögð hafa verið til grundvallar Parísarsamkomulagsins og þar kemur íslenskt hugvit og íslensk tækni að góðum notum. Markmið sameinaðs félags er að vaxa enn frekar og nýta það forskot sem félagið hefur nú þegar á sviði framsækinna hugbúnaðarlausna á þessu sviði. Ég hlakka til að vinna með því öfluga starfsfólki sem vinnur hjá Stika.“

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa grænna lausna;

„Samruni Klappa og Stika mun efla og styrkja nýsköpun á Íslandi á sviði sjálfbærnilausna og um leið styrkja íslenskar lausnir og auka slagkraft þeirra í alþjóðlegri samkeppni. Ég vil taka þátt í frekar uppbyggingu á því öfluga fyrirtæki sem til verður með sameiningu. Við höfum háleit markmið varðandi framtíðina og vitum að mikil tækifæri eru til staðar til frekari vaxtar. Að takast á við loftslagsmálin verður ein stærsta áskorun mannkynsins á komandi árum og ég hlakka til að samþætta hugbúnaðarlausnir okkar á sviði áhættugreiningar, áhættumats, áhættustjórnunar við umhverfislausnir Klappa“

Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Stika;

„Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur í gegnum tíðina komið að fjárfestingu og vexti fjölmargra nýsköpunarfyrirtækja. Loftslagsmálin, umhverfismál almennt og íslensk nýsköpun er okkur hugleikin. Samruni Stika og Klappa er til þess fallinn að efla félögin enn frekar þannig að þau geti orðið enn sterkara bakland okkar í loftslagsmálum á alþjóðavísu. Það er okkur sérstök ánægja að fylgja Stika eftir inn á First North markað Kauphallarinnar. Við verðum áfram hluthafar og bakhjarlar hins sameinaða félags. “

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins;

Nánar um Klappir Grænar Lausnir:

Klappir grænar lausnir hf. er leiðandi í heiminum á sviði hugbúnaðarlausna í loftslags- og umhverfismálum. Lausnir og aðferðafræði Klappa fela í sér söfnun, vinnslu og miðlun umhverfisupplýsinga, þar sem mögulegt er að greina gögnin, setja upp töluleg markmið og fá heildstæða yfirsýn yfir mengandi starfsþætti. Klappir grænar lausnir var stofnað í núverandi mynd árið 2017 með samruna þriggja fyrirtækja, KGS, Datadrive og Ark Technology.

Nánar um Stika:

Upplýsingatæknifyrirtækið Stiki var stofnað árið 1992 og er leiðandi á sviði áhættustjórnunar í rekstri. Stiki hefur um árabil þróað hugbúnað til áhættugreiningar, áhættumats og áhættustýringar og verið í samstarfi við háskóla og rannsóknarstofnanir í Evrópu og Norður-Ameríku um þróun nýrra aðferða til áhættugreiningar. Félagið býður upp á heildarlausnir og ráðgjöf við innleiðingu stjórnkerfa skv. ISO-stjórnunarstöðlum, sér í lagi á sviði upplýsingaöryggis. Þá hefur Stiki um áratuga skeið þróað heilsumatskerfi, svokölluð RAI heilsumatskerfi, sem notuð eru í heilbrigðisþjónustu um allt Ísland. Stiki er með viðskiptavini í meira en 20 löndum.

Nánar um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins:

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Sjóðurinn hefur starfað í rúm 20 ár og fjárfest í yfir 150 sprotafyrirtækjum.

Nánari upplýsingar veita;

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa grænna lausna, í síma 664 9200.

Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Stika, í síma 899 9200.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, í síma 860 9494