Mannlegi þátturinn í þjónustu við eldra fólk

Nýsköpun og tækni í þjónustu við eldra fólk
27/06/2015
Nýr hugbúnaður í bráðaþjónstu
30/07/2015

Maðurinn er efni og andi. Því er mikilvægt að nálgast heilbrigðisþjónustu við fólk, ekki síst eldra fólk, með heildrænum hætti. Andleg aðhlynning verður oft útundan í heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir að mikilvægi hennar sé almennt viðurkennt. Þótt fólk eldist upplifa flestir sig áfram unga hið innra, með sömu langanir, vonir og þrár sem fyrr. Við heilsu- eða færnitap rennur þó smám saman upp fyrir fólki að lífi okkar hér á jörð eru takmörk sett. Mikilvægi andlegrar aðhlynningar vex á þriðja æviskeiði okkar.

Andleg umönnun er mikilvæg

Pálmi V. Jónsson

Kjarni andlegrar umönnunar er nærvera. Í henni felast kynni og umhyggja sem er annars konar en læknisfræðileg meðhöndlun. Sjónum er beint að tilfinningalegum, félagslegum og andlegum þáttum. Þess ber að geta að hið andlega er ekki það sama og hið trúarlega. Fólk getur verið andlega sinnað og átt sinn andlega veruleika án þess að trúa á Guð eða æðri mátt. Að liðsinna fólki andlega snýst um að hjálpa fólki að finna lífi sínu merkingu og tilgang; að skilja sjálfa sig og aðra. Líf okkar er samfellt þroskaferli. Þrátt fyrir mikla æskudýrkun og jafnvel aldursfordóma viðurkenna flestir að aldri fylgi aukinn þroski. Þá er meðal annars átt við að umburðarlyndi og skilningur vaxi. Þegar fólk skynjar nálægð við dauðann fær andlegi þáttur lífsins, hin andlega vitund, gjarnan aukið vægi og verður mikilvægari.

Brugðist við einmanaleika

Margir kannast við að einmanaleiki fólks eykur kvíða og skerðir lífsgæði verulega. Við þessu reyna fjölskyldur að bregðast með símhringingum og heimsóknum. Ekkert kemur í staðinn fyrir nálægð annarrar manneskju sem með skilningi, hlýrri nærveru, samræðu og hlustun eykur gleði og viðheldur forvitni um lífið sem fram fer utan dyra þess sem sjálfur kemst ekki út. Forvitnin er órækt merki um lífsgleði og lífsvilja, það sem drífur fólk fram úr á morgnana, gefur því kraftinn til daglegra athafna og vilja til að taka þátt í lífinu. Önnum kafið starfsfólk í heilbrigðisþjónustu nær ekki að sinna þörf eldra fólks fyrir samskipti nema að takmörkuðu leyti. Ættingjar og vinir eiga oft í erfiðleikum með að finna tíma til heimsókna vegna hraða og álags sem einkennir nútíma samfélag.

Sjúkur var ég og þér vitjuðuð mín

Svana Helen Björnsdóttir

Umhugsunarvert er hvernig samfélagið getur hjálpað fólki sem glímir við einmanaleika, þunglyndi og kvíða, er nánum ættingjum sleppir. Ein leið gæti verið að bjóða fólki sem þjáist af þessum einkennum að búa í opnu sambýli með öðru fólki. Þjóðkirkjan hefur lengi verið hluti velferðarkerfis okkar vegna hins kristna mannskilnings síns. Í þeim anda liðsinna þjónar kirkjunnar fólki með sálusorgun og ráðgjöf þegar erfiðleikar steðja að. Þannig heimsækja prestar og djáknar sjúkt og aldrað fólk, og sinna því eins og þeir best geta. Einnig skipuleggja þessir aðilar víðtækari stuðning með liðsinni fólks í kirkjusóknum og nærumhverfi. Þá hefur Rauði krossinn skipulagt starf heimsóknavina með líkum hætti og þjóðkirkjan. Á hans vegum heimsækir fólk sjúklinga á heilbrigðisstofnunum sem annars fengju sjaldan eða aldrei heimsóknir og sömuleiðis aðra er búa við einsemd. Þetta lofsverða sjálfboðaliðastarf hefur mikla þýðingu fyrir þá sem njóta en vegna eðlis starfsins er sjaldan um það rætt opinberlega og það ekki nógsamlega lofað. Þjóðkirkjan gæti án efa skipulagt meira starf af þessu tagi. Innan hennar vébanda er fjöldi fólks sem ekki sinnir lengur fastri vinnu en er við góða heilsu og með vilja til að láta gott af sér leiða. Það er vel fallið til að styðja meðbræður og -systur með heimsóknum og nærveru – og auðga um leið eigið líf.

Tökum höndum saman

Nýsköpun þarf að eiga sér stað í þjónustu við eldra fólk en sú nýsköpun þarf að ná víðar en til tæknilausna. Hugarfar fólks er drifkraftur í þessu efni. Innri samfélagsgerð og skipulag byggðar þarf að taka mið af velferð allra – alla ævi. Það er gleðilegt að Reykjavíkurborg hafi á síðustu misserum markað sér þá stefnu að verða aldursvæn borg og að umsókn þess efnis hafi nýlega verið samþykkt hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, WHO. Í því felst virðing við eldra fólk og viðurkenning á mikilvægi þess fyrir samfélagið allt. Með því að mæta þörfum eldra fólks er um leið stuðlað að velferð annarra í samfélagi okkar, svo sem barna, fjölskyldna og fatlaðra.

Íslenskt samfélag er tæknivætt og afar kraftmikið þegar fólki eru skapaðar aðstæður til að njóta sín. Landið byggir forvitið fólk og hér eru boðleiðir stuttar. Það leiðir til þess að auðvelt er fyrir venjulegt fólk að ná áheyrn stjórnvalda eða annarra sem stefna og ákvarðanir velta á. Samfélag okkar er minna stéttaskipt en hjá mörgum stærri þjóðum. Þetta ætti að tryggja jöfn tækifæri til mennta og starfa, t.d. frumkvöðlum með góðar hugmyndir. Við erum yfirleitt fljót að átta okkur og taka ákvarðanir, sem er mjög gott þegar þess er vel gætt að forðast óvandaðar niðurstöður og flumbrugang. Íslenskir frumkvöðlar í heilbrigðisgreinum sem öðrum starfsgreinum og iðnaði þurfa að taka höndum saman um að nýta tækifærin til að bæta þjónustu við eldra fólk. Þar þurfa stjórnvöld líka að greiða götuna. Hin nýja tækni sem nefnd hefur verið í fyrri grein um sama efni felur í sér ótal tækifæri til að stórbæta þjónustu án þess að hækka kostnað. Til mikils er að vinna því að með bættri þjónustu verður hægt að virkja betur mannauð eldra fólks, gera því kleift að starfa lengur í sína þágu og þjóðfélagsins – ásamt því að njóta lífsins betur og lengur. Um leið sköpum við samfélag þar sem búið er betur að öllu fólki og þannig nást betri afköst og framleiðni samfélagsins, sem nær að blómgast og dafna betur en nokkru sinni fyrr.

Pálmi V. Jónsson er yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Svana Helen Björnsdóttir er verkfræðingur, stofnandi og stjórnarformaður Stika og fv. formaður Samtaka iðnaðarins. Höfundar starfa saman að nýsköpun í þjónustu við eldra fólk.