Norræn sprotafyrirtæki kynna sér vísindagarða í Bretlandi

Stiki fer í samstarf við þýskt fyrirtæki
24/07/2007
Eftir hrun Berlínarmúrsins
22/08/2007

Á vordögum gafst Svönu Helen Björnsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Stika ehf. kostur á að skoða nokkra vísindagarða í Bretlandi. Ferðin var farin í boði viðskiptadeildar breska sendiráðsins hér á landi en breska sendiráðið í Danmörku skipulagði ferðina. Tilgangurinn var að kynna fulltrúum nokkurra norrænna sprotafyrirtækja í upplýsingatækniiðnaði þá kosti sem eru í boði í breskum vísindagörðum með það fyrir augum að koma þeim í samband við bresk fyrirtæki af svipaðri gerð. Svana segir að í haust megi búast við að líftæknifyrirtækjum standi slík ferð til boða. Hún segir að þátttaka fyrirtækja byggist þó mjög á frumkvæði þeirra sjálfra og að þau komi auga á þá möguleika sem í slíkum ferðum felast.

Samvinna stúdenta og fyrirtækja mikilvæg
Svana segir að vísindagarðana sé víða að finna í Bretlandi, einkum í nágrenni við háskóla og annað rannsóknarumhverfi. Þar safnist fyrirtæki saman svo að úr verði eins konar klasasamfélag á ýmsum sviðum. Starfsemin tengist sérsviðum háskólanna og því sem þar er fengist við og nemendum þeirra. „Háskólarnir soga nemendur til sín en mér kom á óvart hvað lítið var um að fyrirtæki ráði í þjónustu sína nemendur með verkefni í meistaranámi. Það er ólíkt því sem gerist í Þýskalandi þar sem atvinnulífið og skólaumhverfið vinna saman og atvinnulífið færir sér í nyt að vinna með nemendum sem er æskilegt og það höfum við viljað gera hér heima. Við viljum líka nýta okkur þetta umhverfi til að næra okkur á nýjustu tækni.“ Svana segir að nú séu tveir sérfræðingar hjá Stika sem hafi í upphafi tengst fyrirtækinu gegnum meistaraverkefni sín við Háskóla Íslands og í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.

Margvíslegur stuðningur við erlend fyrirtæki „Bresk stjórnvöld – bæði ríki og sveitarfélög – og breska útflutningsráðið, UK Trade & Investment, styðja svæðisbundnar skrifstofur og reyna að höfða til erlendra fyrirtækja og bjóða þeim aðstoð. Slíkur stuðningur kallast „Soft Landing“ eða „mjúk lending“ erlendra fyrirtæki í Bretlandi.“ Svana segir að til skamms hafi þessi stuðningur Breta verið bundinn við innlend fyrirtæki og frumkvöðla en nú sjái þeir tækifæri til að auka nýsköpun og vöxt innlendra fyrirtækja sinna með því að laða til sín erlenda frumkvöðla og fyrirtæki til samstarfs. Slíkum aðilum bjóðist ýmiss konar ódýr eða endurgjaldslaus aðstoð og þjónusta, s.s. varðandi húsnæði, símsvörun og markaðsaðgengi og þannig sé reynt að skapa umgjörð til að fóstra fyrirtækin. Þarna eru líka gagnabankar og veitt aðstoð við að leita uppi vænlega samstarfsaðila og viðskiptavini, t.d. fyrir þá sem vinna með persónuupplýsingar eða viðkvæmar upplýsingar eins og hjá Stika. Fyrirtækin geta ennfremur fengið tiltekna handleiðslu til að komast leiðar sinnar í kerfinu.

Árangursrík ferð Svana Helen segist hafa fengið mikið út úr ferðinni og henni hafi strax borist tilboð um húsnæði og margvíslega aðstoð í vísindagörðum í London og Suður-Englandi. Þar er í boði gott húsnæði og frí leiga fyrstu mánuðina auk margvíslegrar annarrar aðstoðar og hún segist íhuga að setja þar upp útibú. Á síðasta ári setti Stiki upp útibú í London en ekki með eigin starfsmönnum heldur verktökum þar sem talið var vænlegra að byrja á að skapa umgjörðina. „Ég tel vísindagarð vera kjörinn stað til að skapa tengslanet kringum starfsemina því að árangurinn byggist á að finna tengla og vera í snertingu við hvetjandi fólk í örvandi umhverfi, fólk sem er á svipuðu róli og maður sjálfur.“ Svana segir að vísindagarðar njóta virðingar í Bretlandi og fyrirtæki sem þar hafa heimilisfang njóta góðs af því. Þar sé ekki litið svo á að fyrirtækin séu ung og vanmáttug heldur vaxandi, áhugaverð og spennandi fyrirtæki sem hafi haft lag á að koma sér fyrir í réttu umhverfi.

Staða íslenskra vísindagarða? Svana segir að Háskóli Íslands ætli að hefjast handa við að reisa vísindagarða næsta haust. Fyrri hugmyndir um vísindagarða hafa nú verið endurskoðaðar og nýjar metnaðarfullar áætlanir eru að líta dagsins ljós. Fyrirtæki sækjast ekki eftir umhverfi sem ber of mikinn keim af stofnanaumhverfi heldur horfa meira til þess að sinna nýsköpun og skapa atvinnutækifæri. „Okkur hefur verið boðið að taka þátt í þessu og þar gæti húsnæðið verið tilbúið til afhendingar eftir hálft annað ár.“

Svana leggur áherslu á að þegar vísindagarðar verða settir upp hér á landi verði að gæta þess að þeir verði ekki einskorðaðir við háskólaumhverfið. Háskólar megi ekki einangrast heldur þurfi að tryggja tengslin við atvinnulífið. Hún vekur athygli á því að í breskum vísindagörðum sé ekki bara að finna smá fyrirtæki. Þar séu einnig stór fyrirtæki sem þurfa jafnvel nokkur þúsund fermetra undir starfsemi sína og eru með mörg hundruð starfsmenn.