Svana Helen Björnsdóttir skrifar:
Í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi kennir margra grasa. Víst er að ekki vantar viljann að styðja við nýsköpun og sprotafyrirtæki en margir vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð og stuðningur er oftar en ekki skilyrtur á þann veg að þeir sem þyrftu fá ekki notið.
Tækniþróunarsjóður Rannís er einn fárra samkeppnissjóða á Íslandi þar sem fyrirtæki geta sótt um verkefnastyrki, allt að 10 milljónum króna á ári að hámarki í 3 ár. En það eru ekki aðeins fyrirtæki sem sækja um styrki í Tækniþróunarsjóð, því þangað sækja margar opinberar stofnanir og keppa við sprotafyrirtækin. Að jafnaði hefur verið hægt að styrkja um 30% verkefna sem sótt hafa um styrk til sjóðsins og þess er krafist að styrkþegar leggi að lágmarki sömu fjárhæð til verkefnisins á móti. Fjármagn ríkisins til sjóðsins hefur að mestu verið óbreytt í krónutölu undanfarin ár, þrátt fyrir verðbólgu. Styrkir hafa heldur ekki vaxið sem nemur verðbólgu.
Í haust tókst þáverandi iðnaðarráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, að standa vörð um fjárveitingar til Tækniþróunarsjóðs og var sjóðurinn meira að segja aukinn svolítið og er nú 570 milljónir á ári. Þessi fjárhæð segir þó ekki alla söguna því fjármunir sjóðsins eru bundnir með framvirkum samningum um verkefni til 2ja eða 3ja ára. Í kjölfar efnahagshrunsins hefur umsóknum fjölgað gríðarlega. Í febrúar 2009 var umsóknamet slegið er yfir 160 umsóknir bárust, sem er meira en þreföldun frá fyrri árum. Aðeins er til fé til að styrkja 10-12% umsókna.
Þau álitlegu verkefni sem ekki hljóta styrk eru ónýtt tækifæri til verðmætasköpunar. Þetta eru slæm skilaboð til frumkvöðla sem ekki hafa að öðru að hverfa.
Í þessari erfiðu stöðu höfum við tvo kosti; að auka fjárframlög til Tækniþróunarsjóðs eða setja aukna fjármuni í Atvinnuleysistryggingasjóð. Munurinn á þessu tvennu er eftirfarandi:
300 milljónir í Tækniþróunarsjóð
165 milljónir í Atvinnuleysistryggingasjóð
Við Íslendingar vitum hve nauðsynlegt það er að bjarga verðmætum. Eftir að aflinn er ísaður þarf að hafa hraðar hendur til að hann spillist ekki. Nú vantar um 300 millljónir upp á að hægt sé að styðja um 30% umsókna í Tækniþróunarsjóð á árinu 2009.
Höfundur er forstjóri Stika.