Nýsköpun og tækni í þjónustu við eldra fólk

Áskornunin í öldrunarþjónustu: fjölbreytileiki og samhæfing
20/06/2015
Mannlegi þátturinn í þjónustu við eldra fólk
04/07/2015

Tímabært er að endurskoða fyrirkomulag allrar þjónustu við eldra fólk. Hluti þeirrar vinnu er stefnumörkun til framtíðar þar sem mið er tekið af þörfum einstaklinga og þeirri staðreynd að fjármunir eru takmarkaðir.

Möguleikar á stórbættri þjónustu

Með teymisvinnu fagfólks í öldrunarþjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa og félagsþjónustu skapast möguleikar á að stórbæta þjónustuna. Fyrst þarf að greina heildarþarfir, ákveða hvaða þjónusta verður boðin, hver veitir hana og hvenær. Hanna þarf þjónustuna með tilliti til þess að ná fram hámarksgæðum og nýtingu þeirra auðlinda sem hún krefst en það eru einkum starfskraftar. Gæði og öryggi þjónustunnar skipta mestu, að hún sé áreiðanleg, fylgja megi eftir framkvæmd hennar og tryggja að hún sé aðgengileg fyrir þá sem njóta hennar. Þá þarf að skilgreina hvaða viðmið eiga að gilda um gæði. Oft eru þeir sem njóta þjónustunnar sjálfir illa færir að meta gæði hennar eða gera athugasemdir. Þá er mikilvægt að aðstandendur séu hafðir með í ráðum, þeir upplýstir og þeim gert kleift að styðja sitt fólk eins og aðstæður leyfa.

Pálmi V. Jónsson

Undanfarin ár hefur þróun á sviði upplýsinga- og mælitækni verið afar hröð. Þær þjóðir sem eiga þess kost að nýta þessa þróun geta stórbætt þjónustu við eldra fólk og aukið umfang hennar án þess að kostnaður hækki að sama skapi. Hér ber fyrst að nefna nútímavæðingu í meðferð heilbrigðisupplýsinga. Hægt er að gera heilbrigðisgögn aðgengileg fyrir mun fleiri heilbrigðisstarfsmenn en nú er og á mun þægilegri hátt en áður. Grunnur að góðri ráðgjöf og meðferð er að hafa réttar og ítarlegar upplýsingar. Bent hefur verið á að heildrænt öldrunarmat er sannreynd aðferð til að ná utan um hin margþættu viðfangsefni eldra fólks, s.s. aldurstengdar breytingar, marga sjúkdóma, lyf, færnitap og félagslegar aðstæður. InterRAI er alþjóðlegur félagsskapur vísindamanna án hagnaðarsjónarmiða sem hefur beitt sér fyrir þróun matstækja sem nýta má á öllum sviðum heilbrigðis- og félagsþjónustu fyrir eldra fólk og fólk með langvinna sjúkdóma óháð aldri. Með þessari nálgun sem fóstrar teymisvinnu er upplýsingum safnað á samræmdan hátt þannig að upplýsingarnar geti flætt hindrunarlaust milli þjónustuaðila. Matskerfi það sem vísindamenn hafa þróað innan InterRAI skilgreinir alla veitta þjónustu sem virk viðfangsefni, gefur vísbendingar um umönnunarleiðir, hefur innbyggða gæðavísa, flokkar fólk eftir umönnunarþörfum, umreiknar umönnunarþyngd yfir í kostnað og getur stuðlað að rannsóknum.

Upplýsingar af því tagi sem hér er lýst eru afar hjálplegar við ákvarðanatöku í daglegu starfi og stuðla að markvissri stefnumótun og mati á öryggi, gæðum og árangri þjónustunnar. Velferðarráðuneytið hefur samið um nýtingu þessara matstækja við InterRAI sér að kostnaðarlausu. Fyrirtækið Stiki ehf. hefur tölvuvætt notkun matstækjanna en með því móti má fá heildarsýn á viðfangsefni og forgangsraða þeim á augabragði. Þessi tækni er þó hvergi nærri fullnýtt.

Sjúkrahús án veggja

Alkunna er að starfsrými Landspítalans er takmarkað á bestu dögum, hvað þá þegar álagstoppar eru í starfseminni. Til marks um þetta var gámum nýlega bætt við sjúkrahúsið og þar útbúin starfsaðstaða fyrir lækna og annað starfsfólk. Með „heimasjúkrahúsi“ er sjúkrahússþjónusta útfærð í heimahúsum með því að blanda saman hugviti og tækni. Slík heimaþjónusta hefur rutt sér til rúms víða erlendis. Fólk dvelur heima eftir að sjúkdómur hefur verið greindur og áætlun um meðferð hefur verið gerð. Þessi nálgun hentar vel miðaldra fólki og eldra fólki sem er að öðru leyti við góða heilsu en þyrfti ella tímabundna stutta sjúkrahúsþjónustu. Þjónustan nýtir sér að öflun heilbrigðisupplýsinga er nú auðveldari en verið hefur og sumt er nú mælanlegt án inngrips þar sem áður þurfti t.d. blóðprufu eða aðra sýnatöku. Einnig eru nýttar framfarir í fjarskiptum sem auðvelda samskipti og stuðla að öryggi, til dæmis eftirlit með blóðþrýstingi, hjartsláttartakti og -hraða. Daglegt eftirlit hjúkrunarfræðinga og lækna er með svipuðum hætti og á sjúkradeild, þ.e. í formi heimavitjana. Spítalasýkingar eru ekki vandamál og rannsóknir hafa sýnt fram á gæði, öryggi og hagkvæmni. Ætla má að Landspítali gæti nú þegar bætt við um 20-30 rúmum með þessum hætti og þannig jafnframt dregið talsvert úr álagi á móðurstöðinni.

Svana Helen Björnsdóttir

Annað nýsköpunarverkefni væri að blanda InterRAI-matstækninni saman við notkun öldrunarlækna á fjarfundabúnaði og öðrum tækjum á Landspítala og styðja þannig við öldrunarþjónustu á heilbrigðisstofnunum um allt land. Ástralir hafa sýnt fram á fýsileika þessa. Í raun gætu ýmsar aðrar sérgreinar nýtt sér sambærilega nálgun. Þannig gæti Landspítali og fleiri spítalar, s.s. Sjúkrahúsið á Akureyri, gert sérfræðiþjónustu enn aðgengilegri á landsvísu.

Öryggisnet fyrir eldra fólk

Hægt er að hugsa sér margs konar lausnir til hjálpar eldra fólki sem vill búa heima þrátt fyrir skerta færni. Auðvelt er að mæla margs konar virkni fólks, telja skref, mæla ferðir upp og niður stiga og jafnvel að skynja þegar fólk fellur til jarðar. Fram eru komnar aðferðir til þess að staðsetja fólk sem hægt er að nýta t.d. fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóm. Einnig fást nú úr sem gamalt fólk getur borið og notað sem farsíma með innbyggðri staðarákvörðun. Þá fást hurðalásar sem stýrt er með farsíma og veita má tilteknum aðilum heimild til að opna. Þá geta þjónustuaðilar sjálfir, að fenginni aðgangsheimild, opnað dyr með auðkenningu um farsíma. Skrá má með þar til gerðum hugbúnaði veitta þjónustu eins og heimilisþrif, heimsóknir hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara eða lækna. Einnig má senda með sjálfvirkum hætti skilaboð til aðstandenda eða annarra þeirra sem koma að þjónustu og mynda saman öryggisnet í kringum aldraðan einstakling. Það er vandi að útfæra þjónustukeðju heimaþjónustu heilsugæslu og félagsþjónustu svo vel fari. Ef raunverulega á að veita einstaklingsmiðaða þjónustu getur þjónustukeðjan orðið flókin sé ekki vel að öllu gætt. Til að hugmyndin nái vel fram að ganga þarf að fela einum aðila frumkvæði og ábyrgð á allri þjónustu gagnvart tilteknum einstaklingi. Slíkur aðili stýrir síðan hópi fagaðila.

Nýta má þróun upplýsinga-, mæli- og fjarskiptatækni, sem er mjög ör, til nýsköpunar í margs konar þjónustu við eldra fólk. Verði sátt um þá stefnu að liðsinna eldra fólki þannig að það geti búið sem lengst heima hjá sér og notið þar heilbrigðisþjónustu, skapa tækni og hugvit mörg tækifæri til að þróa lausnir sem bætt geta hag og daglegt líf.

Pálmi V. Jónsson er yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Svana Helen Björnsdóttir er verkfræðingur, stofnandi og stjórnarformaður Stika og fv. formaður Samtaka iðnaðarins. Höfundar starfa saman að nýsköpun í þjónustu við eldra fólk.

Pálmi er yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Svana Helen Björnsdóttir er verkfræðingur, stofnandi og stjórnarformaður Stika og fv. formaður Samtaka iðnaðarins. Höfundar starfa saman að nýsköpun í þjónustu við eldra fólk.