„Tíminn er það dýrmætasta sem við eigum því hann verður ekki endurtekinn,“ ritaði Dietrich Bonhoeffer í Fangelsisbréfum sínum um áramótin 1942-43. Bonhoeffer var lúterskur prestur, fangelsaður af nasistum fyrir andóf sitt gegn þeim – á tímum þegar auðveldast virtist að lúta þeim sem hæst hrópuðu en virtu mannúð og mennsku að vettugi. Bréfin ritaði hann í fangelsi tvö síðustu ár ævi sinnar. Þau gefa innsýn inn í hugarheim þess sem berst við ofurefli og sýna hvernig hugsanir eins merkasta guðfræðings síðustu aldar þróast meðan hann situr í fangelsi, allt til þess að hann er líflátinn í þrælkunarbúðum nasista í apríl 1945. Fangelsisbréf Bonhoeffers komu út í þýðingu dr. Gunnars Kristjánssonar rétt fyrir jól. Hugleiðingar Bonhoeffer um kristna trú og siðvit eiga mikið erindi til okkar nú þegar sumt fólk upplifir straum flóttamanna sem ógn.
Tíminn verður ekki endurtekinn og því er hann okkur svo dýrmætur. Glataður er sá tími þegar við lærðum ekkert, nutum einskis, öðluðumst enga reynslu og lögðum ekkert í sölurnar. Gleymskan getur stundum verið blessun. Það er minnið einnig þótt á annan hátt sé, þegar við rifjum upp það sem á daga okkar hefur drifið og hvernig okkur tókst að lifa ábyrgu lífi. Sagt hefur verið að sá sem gleðst yfir fortíð sinni lifi tvöfalt.
Nú, í upphafi árs 2016, erum við flest eftirvæntingarfull um hvað nýtt ár beri í skauti sér. Flest viljum við nýta tíma okkar vel, koma því í verk sem enn er óunnið frá fyrri tíð. En hvað er eftirsóknarvert? Og hvað þarf til þess að við sem einstaklingar og sem þjóð verðum gæfusöm og farsæl? Höfum við næga fótfestu í þeirri vegferð sem framundan er? Við leitumst við að vera hugsandi og ábyrg – en á hverju byggjum við framtíðarsýn okkar og samfélagsgildi?
Oft er skynsamlegt að vera hæfilega svartsýnn. Með raunsæju hugarfari búum við okkur undir erfiðar aðstæður þannig að við stöndum ekki berskjölduð og varnarlaus þegar á reynir. Það sem knýr okkur áfram í lífinu er hins vegar umfram allt bjartsýni og eftirvænting. „Bjartsýni er í eðli sínu ekki skilningur á aðstæðum líðandi stundar heldur er hún lífskraftur vonarinnar þar sem aðrir gefast upp, kraftur til þess að halda höfði þegar allt virðist renna út í sandinn, kraftur til að horfast í augu við vonbrigði, kraftur sem lætur framtíðina aldrei í hendur andstæðingsins heldur nýtir hana í eigin þágu.“ Þannig ritar Bonhoeffer um leið og hann, innilokaður í fangaklefa, dýpkar hugsanir sínar og trú á kærleiksríkan Guð.
Það er ekki nýtt að ófriður geisi í heiminum. Fáir núlifandi Íslendingar hafa þó, sem betur fer, kynnst slíku. Stríðsátök hafa nú færst nær okkur og orsakað mikinn flóttamannastraum til Evrópu. Þennan straum flóttamanna upplifa margir Evrópubúar sem ógn við eigin menningu. Í hinum vestræna heimi hefur okkur tekist að byggja upp lífskjör sem eru betri en annars staðar; líf þar sem einstaklingar njóta frelsis og mannréttinda sem víða eru ekki jafnsjálfsögð.
Sérstaklega eru það konur sem verða varar við menningarmuninn. Í nýlegu sjónvarpsviðtali lýsti þýskur kvenlögreglustjóri þeim vanda sem hún og kynsystur hennar mæta þegar þær þurfa að skakka leik karlkyns flóttamanna sem eiga í innbyrðis erjum. Kvenlögreglumönnum er ógnað og þær lítilsvirtar vegna þess eins að þeir eru konur. Í viðtalinu lýsti þýski lögreglustjórinn því sem mikilli ógn við þýskt samfélag að hleypa inn í landið, án nægjanlegs undirbúnings, milljón flóttamönnum sem hvorki þekkja vestræn lög eða siði.
Fyrir jólin kom út bókin „Stríðsárin 1938-1945“ eftir Pál Baldvin Baldvinsson. Þar er gerð grein fyrir því viðmóti sem flóttamenn af gyðingaættum mættu hér á landi, fólk sem var að flýja sömu kúgara og héldu
Dietrich Bonhoeffer föngnum. Í bókinni er eftirfarandi texti úr leiðara dagblaðsins „Vísis“ 31. maí 1938 rifjaður upp:
„Margir líta svo á að fólk þetta hafi flúið land sitt vegna pólitískra ofsókna og þess vegna sé mannúðarskylda að veita því landvist. Íslendingar geta yfirleitt ekki sætt sig við að menn séu ofsóttir vegna trúar sinnar eða þjóðernis. En menn mega ekki láta þetta villa sér sýn. Í fyrsta lagi er engin ástæða til að ætla að þeir sem hingað koma eigi einskis úrkosta þótt þeim sé neitað hér um dvalarleyfi. Í öðru lagi er þjóðin ekki aflögufær um atvinnu handa aðkomumönnum. í þriðja lagi er þjóðinni enginn fengur í þessum „landnemum“. Félagsskapur mun hafa verið stofnaður hér af nokkrum alþjóðlega sinnuðum persónum sem í alt vilja blanda sér til þess að greiða fyrir landnemanum. Slíkt þekkist í hverju landi en af engum tekið alvarlega.“
Við sem getum dæmt þennan leiðara í ljósi sögunnar sjáum að allar þrjár ályktanir hans voru rangar. Fólkið sem hingað leitaði átti enga aðra kosti og margt af því endaði líf sitt í útrýmingarbúðum nasista. Þjóðin varð skömmu síðar mjög aflögufær um vinnu og auk þess er líklegt að flóttafólkið hefði sjálft skapað sér atvinnutækifæri. Þjóðinni reyndist afar mikill fengur að mörgu því fólki sem þó fékk hér landvist og nægir að nefna ómetanlegt framlag þess til tónlistarlífsins á Íslandi.
Það er áskorun okkar allra sem búum við meira frelsi og öryggi en víðast þekkist að koma meðbræðrum okkar í lífsháska til bjargar. Það á hins vegar ekki að hafa í för með sér að við þurfum að víkja frá því sem grundvallað hefur það þjóðfélag sem hér hefur myndast á liðnum öldum; þjóðfélagsmynd sem einmitt hefur orðið til þess að laða margt flóttafólk að landi okkar. Við erum ekki tilbúin að gefa afslátt af þeim kristnu gildum sem kærleiksríkt samfélag okkar, frelsi og lífsgæði byggja á. En nú reynir á það að geta hugsað og viðhaldið víðsýnni hugsun. Í því er fólginn lykill frelsis og farsældar allra sem hlut eiga að máli.
Þegar leita þarf lausna á vandamálum, ná hugsun upp úr gömlu fari og færa yfir á nýjar brautir, reynir á vit og hugmyndaauðgi. Hvernig er unnt að hrífa fólk úr hrammi einhliða hugsunar? Þar kemur kristin trú til hjálpar, því í reynd er það aðeins trúin sjálf sem gerir fjölvídd lífsins mögulega. Hún gerir okkur kleift að rísa gegn mótlæti og hverri raun – og gleðjast á erfiðum tímum í lífi okkar.
Þjóðfélag okkar þarf fólk með siðferðisþrek; fólk sem ekki leitar síns eigin; fólk sem byggir líf sitt á grunngildum kærleika og mannúðar; fólk með ríka réttlætiskennd – og hegðun í samræmi við hana; fólk sem metur ærlegheit ofar efnalegum ávinningi. Munu þeir sem fá völd kunna með þau að fara?
Réttlæti er forsenda friðar í heiminum. Það er mikilvægt fyrir heimsfriðinn að nálgun stjórnmálamanna og annarra áhrifamanna í samfélögum heims beinist markvíst að því að ná bestu hugsanlegu lífsskilyrðum fyrir allt fólk. Að þannig verði rudd braut aukins réttlætis fyrir alla, hvar sem þeir standa í samfélaginu, nýrra afreka og vaxandi hugrekkis, og þar með betri leiðtoga.
Um þessar mundir knýr dyra hjá okkur fólk sem er í neyð. Við getum ekki gert allt fyrir alla en við getum hjálpað mörgum. Ef við tækjum hlutfallslega við jafnmörgum flóttamönnum og Þjóðverjar myndum við veita yfir 3000 manns hæli hér á landi, en nú hafa stjórnvöld ákveðið komu um 50 manns. Okkur er fulljóst að við getum gert betur um leið og við stöndum vörð um og eflum það góða kristna þjóðfélag sem hér hefur verið byggt upp af fyrri kynslóðum. Hér er lagður prófsteinn á hjálpsemi okkar, mannúð og siðgæði. Gleymum hins vegar ekki því fólki meðal okkar sjálfra sem býr við þröng kjör og verðskuldar að betur sé að því búið.
Nú við upphaf nýs árs er ástæða til bjartsýni. Hagvísar eru jákvæðir og margt bendir til að árið 2016 verði þjóðinni hagfellt. Framundan eru stór verkefni eins og að byggja nýjan Landspítala og endurskipuleggja heilbrigðisþjónustu m.t.t. þarfa eldra fólks. Allt er þetta vel gerlegt og enginn ætti að þurfa að búa við fátækt eða vera án atvinnu í okkar gjöfula landi. Við erum aflögufær.
Fylgjum hinni gullnu reglu kristinnar trúar, að koma fram við annað fólk eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Það mun á öllum sviðum reynast okkur gott nesti inn í nýtt ár og stuðla að farsæld.
Svana Helen Björnsdóttir, verkfræðingur og kirkjuráðsmaður