Stiki aðstoðar Betware við innleiðingu upplýsingaöryggis skv. ISO/IEC 27001

PCI staðallinn
11/09/2007
Rafræn skilríki
30/10/2007

Stiki og Betware gengu nýverið til samstarfs um innleiðingu upplýsingaöryggis hjá Betware. Betware er íslenskt hugbúnaðar- og þjónustufyrirtæki stofnað árið 1998. 
Betware sérhæfir sig í gerð tæknilausna fyrir ríkislottó og er brautryðjandi á því sviði. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Reykjavík en auk þess er fyrirtækið með þrjú útibú í Evrópu og Norður-Ameríku. Starfsmenn eru rúmlega 60 í dag en verða væntanlega orðnir um 90 fyrir árslok. Á myndinni má sjá Svönu Helen Björnsdóttur framkvæmdastjóra Stika og Stefán Hrafnkelsson framkvæmdastjóra Betware við undirritun samstarfssamningsins.

Stiki hefur á undanförnum árum verið leiðandi í ráðgjöf á sviði upplýsingaöryggis á íslenskum markaði og aðstoðað fjölmörg íslensk fyrirtæki og stofnanir við innleiðingu upplýsingaöryggis. Stiki er öryggis- og gæðavottað skv. ISO/IEC 27001 og ISO 9001. Fyrirtækið er eina fyrirtækið á Íslandi sem hlotið hefur faggildar vottanir á báðum sviðum og það er jafnframt eina ráðgjafarfyrirtækið með vottun skv. ISO/ IEC 27001.

Stiki mun aðstoða Betware við innleiðingu upplýsingaöryggis en fyrirtækið stefnir að vottun skv. öryggistaðlinum ISO/ IEC 27001 á næsta ári. Betware hefur einnig fest kaup á áhættumatshugbúnaði Stika, RM Studio, en áhættumat í vinnslu upplýsinga er mikilvægur þáttur í upplýsingaöryggi.

“Við hjá Stika erum ánægð með að fá tækifæri til að vinna með Betware við innleiðingu upplýsingaöryggis hjá þeim. Betware er auðvitað gríðarlega spennandi fyrirtæki í miklum vexti og það er okkur ánægja að fá að aðstoða fyrirtækið í því metnaðarfulla ferli. Það er gaman að sjá að íslensk útrásarfyrirtæki eru farin að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að vinna skipulega að innleiðingu upplýsingaöryggis en skilningur stjórnenda fer sífellt vaxandi á þessum þætti í góðri stjórnun. Við erum sjálf öryggis-og gæðavottuð og vitum af eigin raun hvaða kosti það hefur að vinna í slíku umhverfi og fara reglulega í gegn um úttektar- og vottunarferli”, segir Svana Helen Björnsdóttir framkvæmdastjóri Stika.

“Samstarfið við Stika hefur gengið vel og við hlökkum til að vinna að innleiðingu upplýsingaöryggis með þeirra aðstoð.”, segir Stefán Hrafnkelsson framkvæmdastjóri Betware. “Upplýsingaöryggi skiptir okkur miklu máli og að geta sýnt fram á það með vottun skv. ISO/IEC 27001 auðveldar markaðsfærslu okkar á erlendan markað. Betware er fyrirtæki í miklum vexti og alþjóðleg viðmið eru mikilvæg til að samræma aðgerðir á þeim mörkum sem fyrirtækið er með starfsemi og viðskiptavini.”