Eggert Ólafsson (UTM), Árni Kristinsson (BSI), Hjörtur Grétarsson (UTM), Svana Helen Björnsdóttir (Stiki) og Sigurpáll Ingibergsson (Stiki)
Upplýsingatæknimiðstöð Reykjavíkurborgar hlaut nýverið alþjóðlega og faggilda vottun skv. ISO/IEC 27001, sem er staðall um stjórnkerfi upplýsingaöryggis. Vottunin staðfestir að Reykjavíkurborg hefur byggt upp og starfrækir virkt stjórnkerfi upplýsingaöryggis.
Í því felst meðal annars að gert hefur verið áhættumat á upplýsingakerfum og beitt er kerfisbundnum aðferðum til að lágmarka áhættu. Stefna hefur verið mörkuð og verkferlar liggja fyrir, áhættumat er framkvæmt reglulega og áætlanir um samfelldan rekstur hafa verið gerðar og eru rýndar reglulega.
Unnið hefur verið að innleiðingu upplýsingaöryggis hjá Reykjavíkurborg í meira en tvö ár og strax við upphaf innleiðingarinnar ákváðu stjórnendur Upplýsingatæknimiðstöðvarinnar að velja sérfræðinga Stika sem ráðgjafa við verkefnið. Reykjavíkurborg valdi ennfremur að nota hugbúnað Stika RM Studio til að gera áhættumat og stjórna innleiðingaferlinu. Árangur þessar vinnu er nú kominn í ljós og Stiki óskar starfsmönnum Upplýsingatæknimiðstöðvarinnar innilega til hamingju með frábæran árangur.
Upplýsingatækni snertir störf langflestra borgarstarfsmanna og þar með daglegt líf flestra borgarbúa í nútímanum því er þessi vottun mikilvægur áfangi fyrir Upplýsingamiðstöð Reykjavíkurborgar sem þjónustar rúmlega 24.000 notendur á 260 starfstöðvum.