Verkfræðistofan Stiki hefur náð þeim áfanga að verða fyrsta íslenska fyrirtækið sem breska staðlastofnunin BSI (British Standards Institution) öryggisvottar. Skv. vefsíðunni http://www.stiki.is/ er Stiki meðal 126 fyrirtækja á alþjóðlegum lista yfir fyrirtæki sem hlotið hafa faggilda öryggisvottun skv. BS 7799. Það að vottanirnar eru faggildar þýðir að vottunaraðilinn sjálfur er vottaður. Það er breska löggildingarstofan UKAS (United Kingdom Accreditation Service) sem vottar BSI. Vottuð voru stjórnkerfi upplýsingaöryggis skv. öryggisstaðlinum BS 7799 og kerfi til gæðastjórnunar skv. ISO 9001. Þessar vottanir hafa mikla þýðingu fyrir Stika. Þær snúast um traust og vill Stiki með þeim sýna fram á og færa sönnur á öryggi og gæði í allri starfsemi fyrirtækisins.
Sá áfangi sem Stiki hefur náð markar tímamót fyrir marga aðra sem hafa með höndum vinnslu persónuupplýsinga eða annarra viðkvæmra upplýsinga. Fyrirtækið hefur sýnt metnað og hér með rutt braut fyrir önnur fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld sem tryggja vilja öryggi upplýsinga í starfsemi sinni. Öryggi upplýsinga þýðir nefnilega, ef rétt er að málum staðið, betri og áreiðanlegri upplýsingar fyrir þá sem þær þurfa. Jafnframt þýðir öryggi upplýsinga að leynd er tryggð og aðeins þeir fá aðgang sem aðgangsrétt hafa. Um þessar mundir er einnig verið að taka í notkun tvö upplýsingakerfi sem Stiki hefur unnið að í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið. Notkun þessara kerfa markar tímamót við mat á heislufari aldraðra.
Persónuvernd er tryggð m.a. með nýjustu dulritunartækni og er hér um að ræða tilraunaverkefni á sviði íslenska heilbrigðisnetsins. Verkfræðistofan Stiki var stofnuð 1992 . Starfsmenn Stika eru 8 talsins og hefur fyrirtækið sérhæft sig í upplýsingatækni, einkum öryggi í vinnslu viðkvæmra upplýsinga. Meðal helstu viðskiptavina Stika eru öll ráðuneyti Stjórnarráðsins, Landæknisembættið, heilbrigðisstofnanir og fjármálastofnanir. Frá 1994 hafa starfsmenn Stika unnið ýmis tilsjónarstörf fyrir tölvunefnd og síðar Persónuvernd.