Stiki hlýtur gullvottun Microsoft

Eftir hrun Berlínarmúrsins
22/08/2007
PCI staðallinn
11/09/2007


Stiki ehf. hefur hlotið gullvottun frá Microsoft. Fyrirtækið er nú komið í hóp þeirra hugbúnaðarfyrirtækja sem búa yfir hvað mestri hæfni og sérþekkingu á Microsoft tækni og að hafa nánasta samstarfið við Microsoft.
Á myndinni má sjá Halldór Jörgensson framkvæmdastjóra Microsoft afhenda Svönu Helen Björnsdóttur framkvæmdastjóra Stika gullskjöldinn.

Að sögn Svönu Helenar Björnsdóttur framkvæmdastjóra Stika er gullvottunin mikilvæg Stika fyrir margra hluta sakir. “Gullvottunin er mikilvæg fyrir okkur í markaðsstarfi á hugbúnaðarlausnum okkar bæði hérlendis og ekki síður erlendis. Hún staðfestir auk þess þá einurð okkar að vinna í Microsoft umhverfi. Í landvinningum erlendis er greinilegt að gullvottun Microsoft skiptir máli, en við erum m.a. að markaðssetja Microsoft lausnir okkar í Bretlandi og Þýskalandi”.

Í tengslum við gullvottun Microsoft fékk RM Studio hugbúnaður Stika á sviði upplýsingaöryggis vottun frá Veritest eftir að hafa farið í gegn um gaumgæfilega skoðun af þeirra hálfu. Hugbúnaðarsérfræðingar Stika hafa jafnframt tamið sér Scrum aðferðafræði Microsoft við hugbúnaðargerð og Stiki hefur nýlega innleitt Microsoft CRM samskiptakerfi hjá fyrirtækinu.

“Það má því segja að Microsoft sé okkar leiðarljós í þróun á hugbúnaðarlausnum framtíðarinnar”, segir Svana Helen Björnsdóttir.


Gullvottun Stika er fyrir svokallaða ISV lausn sem er fyrir sjálfstæða hugbúnaðarframleiðendur. “ISV gullvottunin er feiki mikið afrek þar sem hún þykir einna erfiðust að vinna til innan vottunarflokka Microsoft og mikið gleðiefni að Stiki skuli bætast við í hóp sérstaklegra hæfra fyrirtækja á þessu sviði” segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi.

Stiki er ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum á sviði upplýsingaöryggis auk þess sem fyrirtækið þróar sérhæfðar lausnir fyrir heilbrigðisstofnanir. Stiki er bæði gæðavottað skv. ISO 9001 gæðastaðlinum  og öryggisvottað skv. ISO/IEC 27001 öryggisstaðlinum.

“Að fá gullvottun Microsoft sýnir samstarfsaðilum okkar og viðskiptavinum enn frekar fram á að við hjá Stika höfum fagmennsku, gæði og öryggi að leiðarljósi í okkar starfi hvort sem um er að ræða hugbúnaðarþróun, ráðgjöf eða hýsingu” segir Svana Helen.