Stiki og Landlæknisembættið hafa gengið til samninga um rekstur og hýsingu Vistunarmatsskrár. Með samningum tekur Stiki að sér að annast rekstur, hýsingu og þjónustu Vistunarmatsskrár með það að markmiði að tryggja áfram stöðugan rekstur skrárinnar. Vistunarmatsskrá er rafrænt upplýsingakerfi til að skrá og geyma vistunarmatsupplýsingar og ber landlæknir ábyrgð á skránni. Vistunarmat er faglegt, einstaklingsbundið mat á þörfum einstaklinga fyrir varanlega búsetu á hjúkrunarheimili. Skráning vistunarmats er í höndum vistunarmatsnefnda í hverju heilbrigðisumdæmi fyrir sig.
Vistunarmatsskrá hefur að geyma tölulegar upplýsingar um fjölda þeirra sem óskað hafa eftir vistunarmati, fjölda þeirra sem eiga gilt vistunarmat og fjölda þeirra sem eru búsettir á hjúkrunarheimilum hverju sinni. Einnig endurspeglar Vistunarmatsskrá fjölda þeirra sem eru á biðlista eftir búsetu á hjúkrunarheimilum.
Meðfylgjandi mynd er frá undirskrift samningsins 2. febrúar sl. Frá vinstri. Sigríður Haraldsdóttir sviðsstjóri, Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Stika, Matthías Halldórsson landlæknir og Bjarni Þór Björnsson, tæknilegur framkvæmdastjóri Stika.