Fyrirtækin Stiki og Sjá hafa undirritað samstarfssamning um gæðastjórnun í hugbúnaðarþróun. Skv. samningnum mun Sjá rýna viðmót og virkni hugbúnaðar sem þróaður er hjá Stika. Um er að ræða tvenns konar hugbúnað, annars vegar Risk Management Studio hugbúnað til áhættumats í rekstri og hins vegar hugbúnað fyrir heilbrigðisþjónustu til að meta gæði heilbrigðisþjónustu með svonefndri RAI-mæliaðferð.
Á myndinni eru: Jóhanna Símonardóttir fjármálastjóri Sjár og Áslaug María Friðriksdóttir framkvæmdastjóri Sjár, Svana Helen Björndóttir forstjóri Stika og Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri hugbúnaðarsviðs Stika.
Stiki hefur um árabil þróað hugbúnaðarlausnir fyrir erlendan markað og hefur rekið fyrirtæki í Bretlandi frá árinu 2006. Um þessar mundir er að koma út ný og endurhönnuð útgáfa af áhættumatshugbúnaðinum RM Studio sem tekur mið af nýjasta Windows og Office útliti Microsoft. RM Studio var sýnt á CeBit tæknisýningunni í Hannover í Þýskalandi í mars og fóru viðtökur fram úr björtustu vonum. Réði þar miklu að útlit og viðmót hugbúnaðarins hefur verið endurhannað og einfaldað og virkni bætt prófuð í samstarfi við Sjá.
Fyrirtækið Sjá ehf. hefur sérhæft sig í hönnun góðra vefkerfa fyrir fyrirtæki og stofnanir og hefur fyrirtækið tekið þátt í þróun og frumgerðum margra stærstu vefja landsins. Sjá hefur einnig sérhæft sig í viðmóts- og virkniprófunum hugbúnaðar enda mikil þörf fyrir slíka þjónustu ef mæta á vaxandi kröfum markaðarins um gæði og öryggi hugbúnaðar.
RM Studio hugbúnaður Stika hefur verið seldur til fyrirtækja og stofnana á Íslandi, í Bretlandi, Þýskalandi og víðar í Evrópu. Honum er beitt við innleiðingu og stjórnun upplýsingaöryggis skv. alþjóðlegum stöðlum og hefur Stiki gert samninga við staðlastofnanir víða um heim um notkun alþjóðlegra staðla í kerfinu. Stiki er gullvottaður samstarfsaðili Microsoft auk þess sem allur rekstur fyrirtækisins er gæða- og öryggisvottaður skv. ISO 9001 og ISO/IEC 27001 af bresku staðlastofnuninni British Standards Institution.