Stiki þátttakandi á ráðstefnu í Rostock

Stiki leiðir upplýsingatæknisvið LSH til vottunar skv. BS 7799
10/04/2007
RM Studio vottað af VeriTest
11/06/2007

Íslenskur heilsuiðnaður var kynntur á ráðstefnu í Rostock

ÍSLENSKA sendiráðið í Berlín hefir ætíð unnið ötullega að því að kynna Ísland og íslenskar afurðir, hvort sem það er á menningarsviðinu, viðskiptasviðinu eða heilsusviðinu. Dagana 24.-25. maí var haldin í þriðja sinn í Rostock í Þýskalandi heilsuverndarráðstefnan Nationale Branchenkonferenz Gesundheitwirtschaft. Gegndi þar sendiráðið mikilvægu hlutverki.  Stiki var meðal sýnenda á ráðstefnunni.
(Úr grein Morgunblaðsins 29. maí  2007)

Aðspurður um aðkomu sendiráðsins að ráðstefnunni segir Ólafur Davíðsson, sendiherra í Berlín, að haft hafi verið samband í vetur og beðið um að Ísland yrði sérstakur heiðursgestur og sé það í fyrsta sinn sem slíkt er gert. Þátttaka Íslands fól í sér að lagður yrði til einn fyrirlesari og að „fyrirtæki sem tengjast heilbrigðismálum myndu kynna starfsemi sína.“

Heilmikill áhugi Hvað viðkemur því að Rostock, og þá einnig sambandslandið Mecklenburg-Vorpommern, og Ísland virðast eiga í góðu sambandi segir Ólafur að „heilmikill áhugi sé norður á bóginn“ og að í Norður-Þýskalandi sé áhuginn mikill. „Í fyrra var til dæmis mikil seglskipahátíð haldin í Rostock þar sem Ísland var líka í sérstöku hlutverki sem heiðursgestur, þannig að við höfum þegar nokkuð góð tengsl við bæði stjórnvöld í Mecklenburg-Vorpommern og eins við borgarstjórnina í Rostock.“
Ráðstefnuna sóttu eitthvað um 600 manns og var áherslan lögð á viðskipti tengd heilbrigðismálum, til að mynda ferðamennsku. Að auki var áhersla lögð á óhefðbundnar lækningar. Á báðum þessum sviðum kom Ísland sterkt inn með þátttöku Ensímtækni, Sagamedica, Stika og Bláa lónsins – Iceland naturally, en einnig hvað það varðar að á Íslandi er nýbúið að setja lög „um græðara, sem er samnefni yfir þá sem stunda óhefðbundnar lækningar.“

Ólafur bætti við að mikill áhugi væri á slíkum lækningum í Þýskalandi. Einnig flutti Guðmundur Sigurðsson, læknir á Hólmvík, áhugavert og rómað erindi sem kom inn á óhefðbundnar lækningar á Íslandi og rakti hann sögu þeirra á Íslandi. Ísland var svo með sérbás á ráðstefnunni sem sendiráðið sá um og flutti Ólafur kynningarávarp við opnun ráðstefnunnar, sem miðaði að því að „kynna Ísland sem áhugavert land í heilsutengdri ferðamennsku og að fólk kæmi til Íslands ekki bara til að njóta íslenskrar náttúru og menningar heldur líka til að leita sér heilsubótar.“

„Við opnunina flutti einnig forsætisráðherra Mecklenburg-Vorpommern ávarp þar sem hann talaði sérstaklega um þessa miklu möguleika okkar.“

Ólafur segir að í haust standi til „kynning á glæpasögum og rætt hefur verið um að Ísland verði þar einnig í sérstöku heiðurshlutverki.“

Auk þess er ýmislegt á dagskrá hvað tónlist og önnur menningarmál varðar. Framundan er líka ársfundur Þýsk-íslenska verslunarráðsins í júní og undirbúningur fyrir árlega sýningu sendiráðsins. Í fyrra var hönnun í fyrirrúmi. „Þannig að jarðvegurinn fyrir hvers konar menningarkynningar er náttúrlega mjög góður.“  (Úr grein Morgunblaðsins 29. maí 2007)