Veistu hvar þú ert – ertu viss?

Svana Helen Björnsdóttir
Svana nýr formaður Verk­fræðinga­fé­lags­ins
24/04/2019
Njósnað um alla
Njósnað um alla
27/04/2019
Staðsetningarkerfi

Svana Helen Björnsdóttir skrifar:

Tvær kínverskar MIG orrustuþotur fljúga yfir bresku freigátuna HMS Devonshire. Þær tilkynna henni að hún sé innan kínverskrar lögsögu og senda síðustu viðvörun áður en ráðist verður á hana. Skipstjóri freigátunnar fær staðsetningu sína staðfesta, “jú við erum á alþjóðlegu hafsvæði og munum svara árás í sömu mynt“.

Sem betur fer er þetta ekki raunveruleiki heldur lýsing á upphafsatriði úr James Bond myndinni „Tomorrow Never Dies“ frá árinu 1997. Hryðjuverkamönnum hafði tekist að senda fölsk staðsetningarmerki út á svæðinu svo áhöfn freigátunnar taldi sig vera 70 mílum frá raunverulegum stað. Þetta var vísindaskáldskapur árið 1997 en tuttugu árum síðar getur þetta verið veruleiki,  reyndar hafa atburðir af þessu tagi þegar átt sér stað. Nokkur dæmi eru þekkt þar sem svikamerki hafa verið send út til þess að villa um fyrir notendum staðsetningakerfa. Árið 2011 náðu Íranir bandarískri mannlausri könnunarflugvél og gátu lent henni lítið skemmdri, hugsanlega með svikamerkjum. Árið 2017 var fjöldi skipa á Svartahafinu allt í einu með GPS staðsetningu í tuga mílna fjarlægð frá réttum stað. Svipuð dæmi hafa sést í Kóreu.

Svana Helen Björnsdóttir
Svana Helen Björnsdóttir

Á hverjum degi aka þúsundir flutningabíla um vegi Evrópu og Ameríku. Í mörgum tilvikum er fylgst með ferðum þeirra frá stjórnstöðvum, sem bílstjórunum finnst stundum óþægilegt. Þess vegna eiga þeir lítil tæki sem trufla móttöku staðsetningarmerkjanna. Gallinn er sá að tækin trufla ekki eingöngu staðsetningarkerfin í viðkomandi bíl heldur einnig mörg önnur staðsetningartæki í nágrenninu. Merkin eru nefnilega send frá gervitunglum í 20 þús. km hæð yfir jörðu og eru afar dauf þegar þau berast í staðsetningartækin. Það þýðir að mjög lítið afl þarf til að trufla þau.

Bresk stjórnvöld létu nýlega kanna hve háð breska þjóðfélagið er staðsetningartækni. Þau ímynduðu sér að GPS og skyld kerfi yrðu óvirk í fimm daga og létu reikna út tjónið sem af því hlytist. Það nam 5,8 milljörðum evra. Ef dæmið er heimfært á íslenskar aðstæður samsvarar það 4,6 milljarða króna tjóni hér á landi. Hugsanlega eru Íslendingar enn háðari þessum kerfum því að menn reiða sig mjög á þau við fiskveiðar. Samt er ekkert að finna um staðsetningartækni í nýsamþykktri samgönguáætlun íslenskra stjórnvalda. Nú liggja fyrir drög að nýrri fjarskiptaáætlun og þar er heldur ekkert að finna um staðsetningar- eða leiðsögutækni.

Ýmsar þjóðir, nálægar og fjarlægar, eru mjög hugsi yfir því hve auðvelt virðist að trufla og svíkja gervitunglakerfin. Þær hafa því markað sér stefnu um að byggja upp svæðisbundin staðsetningarkerfi á ný og reyndar hafa margar þjóðir aldrei hætt rekstri Loran-C þjónustunnar sem hér var nýtt til ársins 1994. Nýja Loran tæknin er nefnd e-Loran og er að sjálfsögðu miklu fullkomnari en gamla Loran-C.

Hér á landi var rekið leiðréttingarkerfi fyrir GPS um árabil en þeim rekstri hefur nú verið hætt. Skekkja GPS er svo lítil að varla er þörf fyrir leiðréttingarnar lengur. Slíkt leiðréttingarkerfi hefur þó annan kost sem sjaldan er horft til, það getur sagt til um áreiðanleika eða heilindi staðsetningarupplýsinganna sem fást með GPS og skyldum kerfum. Á komandi árum verður þetta afar mikilvægur þáttur í því að tryggja gæði staðsetninga. Slíkar leiðréttingar eru sendar út á vegum Evrópsku geimvísindastofnunarinnar (ESA) en nást illa á Íslandi, sérstaklega á landinu vestanverðu.  Ísland er eitt af fáum löndum Evrópu sem er ekki aðili að ESA og hefur því ekki rödd þegar ákvarðanir eru teknar um verkefni og þjónustu stofnunarinnar.

Í október 2016 samþykkti Alþingi að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild að ESA. Meðal flutningsmanna tillögunnar er núverandi forsætisráðherra. Hver urðu afdrif málsins og eftir hverju er beðið? Hér eru ríkir hagsmunir fyrir Íslendinga.  

Höfundur er verkfræðingur og framkvæmdastjóri Stika ehf. svana@stiki.eu

Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu 25.4.2019