Áhugaverð grein eftir Svönu Helen Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Stika í viðskiptablaði Morgunblaðsins 28. september 2006. Greinin fjallar um sprotafyrirtæki, nýsköpun og útflutning á íslensku hugviti.
Viljinn einn nægir ekki
Eflum hátæknimenntun, styðjum við nýsköpun, flytjum út íslenskt hugvit. Allt eru þetta setningar sem við höfum heyrt, jafnt frá stjórnmálamönnum, skólamönnum og einkafyrirtækjum. Þrátt fyrir góðan vilja virðist sem virk vísindastarfsemi og góð menntun Íslendinga innanlands sem erlendis skili sér illa í afurðum og nýjum fyrirtækjum. Það er ekki að undra því vafalaust er eftirsóknarverðara fyrir marga vel menntaða einstaklinga að hefja störf hjá stóru útrásarfyrirtækjunum en hefja þá löngu og grýttu leið sem uppbygging sprotafyrirtækis er. Það geta hins vegar geta ekki allir unnið í bönkum, búðum, sjávarútvegi og stóriðju þó þar séu vissulega mörg öflug fyrirtæki að finna. Hjólin þurfa að snúast áfram og ný fyrirtæki hljóta að þurfa að líta dagsins ljós til að hugvit og hátækni geti í raun orðin þriðja stoðin undir gjaldeyristekjum þjóðarinnar.
Frumkvöðlar og fjárfestar
Það tekur um 10 – 15 ár að koma sprotafyrirtækjum á legg og kostnaður er gríðarlegur. Tölur sýna að af 11 góðum hugmyndum nær ein árangri á markaði. Ferli rannsóknar og þróunar, greiningar, prófunar og loks markaðsfærslu er langt og strangt. Mörg íslensk fyrirtæki hafa of snemma verið nauðbeygð til að fá inn fjárfesta sem í stað þess að styrkja rekstur sprotafyrirtækja hugsa aðeins um að hámarka gróða eigin fjárfestingar og eru tilbúnir að slátra sprotafyrirtækjunum og skræla frumkvöðla inn að skinni sem margir hverjir hafa eytt bestu árum ævi sinnar í að byggja upp fyrirtækið.